LEX ráðgjafi í fjármögnun á nýrri landeldisstöð Samherja fiskeldis
LEX veitti Samherja fiskeldi lögfræðilega ráðgjöf í nýlegri fjármögnun félagsins upp á samanlagt 320 milljónir evra, jafnvirði liðlega 45 milljarða króna. Um er að ræða fjármögnun á byggingu Eldisgarðs, nýrrar landeldisstöðvar á Reykjanesi, en fullbyggð mun landeldisstöðin framleiða 36 þúsund tonn af óslægðum laxi sem jafngildir 30 þúsund slægðum tonnum.
Fjármögnunin felst annars vegar í útgáfu nýs hlutafjár í Samherja fiskeldi upp á 210 milljónir evra og hins vegar í sambankaláni upp á 110 milljónir evra. Þess skal getið að hlutafjárhækkunin var stækkuð úr 125 milljónum evra vegna aukinnar eftirspurnar fjárfesta en á meðal nýrra hluthafa eru íslenskir og erlendir fagfjárfestar auk nokkurra af stærstu lífeyrissjóðum landsins.
LEX var ráðgjafi Samherja fiskeldis í fjármögnunarferlinu ásamt Íslandsbanka og Arctic Securities.
Teymi LEX var leitt af eigendunum Stefáni Orra Ólafssyni og Eyvindi Sólnes og verkefnastjóranum Kristni Inga Jónssyni.
Frekari upplýsingar má finna í fréttatilkynningu Samherja fiskeldis.