Fréttir

LEX mun birta hér öðru hverju fréttir af málefnum stofunnar og starfsmönnum hennar, auk auglýsinga um útgáfu efnis frá LEX

Fréttir

ÚTGÁFA

LEX lögmannsstofa leggur áherslu á að viðskiptavinir njóti þjónustu sérhæfðra starfsmanna eftir því sem viðkomandi verkefni kallar á. Slíkt tryggir ekki aðeins fyrsta flokks ráðgjöf handa við­skiptavinum okkar heldur tryggir það einnig að þjónustan sé eins hagkvæm og kostur er. Þá starfa reyndir mál­flytjendur fyrir dómsstólum landsins á öllum fagsviðum LEX.

Eva Margrét og Guð­rún Lilja nýir með­eig­endur LEX

20. febrúar, 2023

Eva Margrét Ævarsdóttir og Guðrún Lilja Sigurðardóttir eru nýir meðeigendur LEX lögmannsstofu. Nú eru sjö konur meðal meðeigenda LEX og hafa þær aldrei verið fleiri. LEX er 60 manna lögmannsstofa, en þar af eru 19 eigendur.

„Það er mikill fengur að fá Evu og Guðrúnu í eigendahópinn. Þær eru báðar leiðandi á sínum fagsviðum en þau svið hafa einmitt verið í miklum vexti samhliða vaxandi þátttöku erlendra aðila í íslensku atvinnulífi sem og vaxandi tækifæra og krafna til fyrirtækja á sviði sjálfbærni. Það er styrkur fyrir stofu eins og Lex, sem býr yfir mikilli breidd á sviði lögfræðinnar, að sú breidd endurspeglist einnig í eigendahópnum,“ segir Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri LEX.

Eva Margrét Ævarsdóttir er lögmaður með leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi. Hún sérhæfir sig í verkefnum sem tengjast sjálfbærni eða UFS sem vísar til umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta (e. environmental, social, governance (ESG)) og leiðir ráðgjöf LEX á því sviði.

Eva Margrét hefur veitt ráðgjöf við grænar og sjálfbærar lánveitingar og margvíslega sjálfbærnifjármögnun, þar á meðal grænna skuldabréfa. Hún hefur einnig unnið að mótun og gerð sjálfbærniskýrslna og ráðgjöf almennt vegna ófjárhagslegrar upplýsingagjafar og upplýsingagjöf aðila á fjármálamarkaði. Þá hefur Eva Margrét veitt ráðgjöf við stefnumótun í sjálfbærni og samþættingu sjálfbærnisjónarmiða við stefnu og markmið fyrirtækja í tengslum við innleiðingu á reglum Evrópusambandsins í sjálfbærni og loftslagsmálum.

Eva Margrét er með L.LM gráðu í Evrópurétti frá KU Leuven í Belgíu, lagapróf frá Háskóla Íslands og hefur lokið stjórnendanámi frá IESE Business School í Barcelona. Hún starfaði áður hjá LEX á árunum 2006-2013 en sneri aftur til starfa á stofunni árið 2021.

Guðrún Lilja Sigurðardóttir er lögmaður með málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi. Hún leggur megináherslu á samkeppnisrétt, félaga– og skattarétt og samningarétt. Hún hefur einna helst sinnt ráðgjöf til stórra og smárra fyrirtækja og hefur veitt bæði innlendum og erlendum fyrirtækjum víðtæka ráðgjöf í tengslum við rekstur þeirra hér á landi. Þá hefur Guðrún Lilja veitt ráðgjöf á sviði samkeppnisréttar í tengslum við stór viðskipti og fjárfestingar hér á landi og annast gerð samrunatilkynninga og samskipti við samkeppnisyfirvöld í nokkrum af stærri samrunamálum landsins undanfarin ár. Auk þess sinnir hún málflutningi fyrir héraðsdómstólum og hefur þar m.a. flutt stefnumarkandi mál á sviðum skatta- og félagaréttar.

Guðrún Lilja er með ML-próf í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hóf fyrst störf hjá LEX árið 2012.

 

Aftur í fréttasafn