UT Messan

Starfar þú á sviði upplýsingatækni?
Við viljum endilega kynnast þér.

Hafa Samband

Fróðleikur

Lögmenn LEX eiga í nánu samstarfi við viðskiptavini, hafa frumkvæði í lausnum og ráðgjöf, faglegri nálgun verkefna og stöðugri umbótahugsun.

LEX hefur um langt skeið veitt fyrirtækjum, opinberum stofnunum og einstaklingum víðtæka þjónustu á öllum sviðum og eru lögmenn LEX á meðal fremstu sérfræðinga landsins á sviði persónuverndar, hugverka-, fjarskipta- og upplýsingatækniréttar og veita alhliða þjónustu á þessum réttarsviðum.

Þá býður LEX einnig upp á sérhæfða þjónustu til fyrirtækja sem fást við þróun hugbúnaðar og gervigreindar, gerð gagnagrunna eða notast við tæknilausnir í störfum sínum og veita auk þess þjónustu á sviði rafrænna viðskipta og fjártækni

Notaður hugbúnaður til sölu

6. febrúar, 2020

Notaður hugbúnaður til sölu – Grein eftir Láru Herborgu Ólafsdóttur sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 21. febrúar 2019.

Helstu verðmæti margra fyrirtækja má nú á dögum finna í hugbúnaðarþróun og hugverkum þeirra. Mikilvægt er að slík fyrirtæki átti sig á mikilvægi þess að rétt sé að verki staðið þegar kemur að leyfisveitingum til viðskiptavina vegna notkunar á þeirra hugbúnaði. Flestir kannast við það þegar nýjum hugbúnaði er komið fyrir á tölvu, en þá þarf iðulega að samþykkja ítarlega samningsskilmála vegna leyfis til notkunar á hugbúnaðinum (e. software license). Nokkuð ber á því að hugbúnaðarfyrirtæki notist við samningsform sem eru úrelt en það getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir fyrirtæki, þar sem í ákveðnum tilvikum er hægt að selja „notuð“ hugbúnaðarleyfi, jafnvel þótt að
leyfissamningur kveði ekki á um slíka heimild.

Samkvæmt höfundalögum nr. 73/1972, sem m.a. innleiða í íslenskan rétt tilskipun Evrópusambandsins um lögvernd fyrir tölvuforrit, á rétthafi tölvuforrits einkarétt til að gera eintök af því og til að gera það aðgengilegt almenningi í upphaflegri eða breyttri mynd, í þýðingu eða annarri aðlögun. Eintakagerð í þessu samhengi telst sérhver bein eða óbein, tímabundin eða varanleg gerð eintaks, í heild eða að hluta, með hvaða aðferðum sem er og í hvaða formi sem er, t.d. ef tölvuforriti er halað niður á tölvu í gegnum internetið. Hafi eintak af tölvuforriti verið selt eða með öðrum hætti framselt til annarra innan Evrópska efnahagssvæðisins, þá er frekari dreifing þess jafnan heimil með sölu, en ekki er heimilt að dreifa eintökum tölvuforrita til almennings með því að leigja þau eða lána, nema með samþykki höfundar.

Í dómi Evrópudómstólsins í máli UsedSoft GmbH gegn Oracle frá 2012 reyndi á hvort leyfissamningur um notkun á hugbúnaði Oracle til viðskiptavina hafi í raun verið sala sem heimilaði endursölu á umræddum eintökum viðskiptavina á hugbúnaðinum til UsedSoft, sem „keypti“ eintökin af leyfishöfum í þeim tilgangi að selja þau áfram. Viðskiptavinir UsedSoft sóttu eintök tölvuforritsins af vefsíðu Oracle með lykilorði sem veitt hafði verið upphaflegum „leyfishafa“. Líkt og að framan er rakið, heimilar eiginleg sala á eintaki tölvuforrits, endursölu þess eintaks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Evrópudómstóllinn taldi að leyfissamningur Oracle hefði raunar falið í sér sölu, m.a. þar sem um ótímabundið leyfi var að ræða hvar einstök greiðsla kom fyrir, en slíkt þótti gefa til kynna að um kaup væri að ræða frekar en notkunarleyfi sem væru jafnan tímabundin og með áskriftargjald. Evrópudómstóllinn komst í fyrsta lagi að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að um sölu væri að ræða, ætti það ekki við um svonefndan uppfærslusamning (e. maintenance agreement) og þar af leiðandi ætti síðari eintakshafi ekki rétt á að nýta sér viðhalds- og uppfærsluréttindi, m.a. þar sem framangreindar reglur varðandi tæmingu eiga fyrst og fremst við um höfundarétt en almennt ekki um samningsbundin réttindi og skyldur í tengslum við þjónustu. Í annan stað er upphaflegum kaupanda ekki heimilt að skipta upp leyfinu, t.d. ef gert er ráð fyrir hámarksfjölda notenda sem nota má forritið, heldur verður að ráðstafa eintakinu með sama hætti og upphaflega var gert. Í þriðja lagi verður upphaflegur kaupandi að eyðileggja sitt eintak af forritinu, ella getur hann gerst brotlegur gagnvart höfundarétthafa vegna ólögmætrar eintakagerðar.

Vilji fyrirtæki koma í veg fyrir að eintök hugbúnaðar þeirra séu seld áfram til þriðja aðila, er mikilvægt að huga vandlega að ákvæðum leyfissamninga, svo sem með þeim hætti að leyfin séu tímabundin og að reglulegar greiðslur komi fyrir. Gagnlegt getur verið að kortleggja hvort og að hvaða marki hægt sé að nota hugbúnaðinn án hagnýtingar á uppfærslum o.þ.h. Þá getur verið mikilvægt að innleiða tæknilegar ráðstafanir, svo sem til að koma í veg fyrir að margir notendur geti notað hugbúnaðinn samtímis. Fyrirtæki geta jafnvel skoðað þann möguleika að bjóða frekar upp á hugbúnað sem þjónustu (e. SaaS) þar sem notendur fá ekki afhent eiginleg eintök forrits, sem eftir atvikum væri hægt að endurselja, heldur einungis aðgang að forritinu, t.d. í gegnum skýjalausnir.

Til baka í yfirlit