UT Messan

Starfar þú á sviði upplýsingatækni?
Við viljum endilega kynnast þér.

Hafa Samband

Fróðleikur

Lögmenn LEX eiga í nánu samstarfi við viðskiptavini, hafa frumkvæði í lausnum og ráðgjöf, faglegri nálgun verkefna og stöðugri umbótahugsun.

LEX hefur um langt skeið veitt fyrirtækjum, opinberum stofnunum og einstaklingum víðtæka þjónustu á öllum sviðum og eru lögmenn LEX á meðal fremstu sérfræðinga landsins á sviði persónuverndar, hugverka-, fjarskipta- og upplýsingatækniréttar og veita alhliða þjónustu á þessum réttarsviðum.

Þá býður LEX einnig upp á sérhæfða þjónustu til fyrirtækja sem fást við þróun hugbúnaðar og gervigreindar, gerð gagnagrunna eða notast við tæknilausnir í störfum sínum og veita auk þess þjónustu á sviði rafrænna viðskipta og fjártækni

Hugbúnaðarkaup hins opinbera

24. maí, 2022

Hugbúnaðarkaup hins opinbera. Grein eftir Láru Herborgu Ólafsdóttur sem birtist í viðskiptablaði Morgunblaðsins þann 1. september 2021

Nú til dags hafa mörg kerfi hins opinbera tekið stakkaskiptum í sinni stafrænu vegferð sem ýmist er ætlað að auka skilvirkni, leiða til hagræðingar eða stuðla að betri þjónustu við almenning. Að mörgu þarf að huga þegar ferlar og kerfi eru „rafvædd“, enda gilda strangar reglur, t.d. í tengslum við öryggis- og persónuvernd sem huga þarf gaumgæfilega að. Þannig getur þurft að uppfæra hugbúnað reglulega og ganga úr skugga um að veikleikar séu ekki til staðar. Þá eru áherslur sífellt að breytast og nýjar hugmyndir koma fram um breyttar útfærslur hinna ýmsu hugmynda. Þannig getur myndast náið samband fyrirtækja og þeirra sem bjóða viðkomandi hugbúnaðarþjónustu.

Samkvæmt lögum nr. 120/2016 um opinber innkaup (OIL) ber opinberum aðilum að bjóða út, með gagnsæjum hætti, innkaup vara, verka og þjónustu yfir tilteknum viðmiðunarfjárhæðum. Markmið laganna er fyrst og fremst að tryggja jafnræði fyrirtækja, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og efla nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu. Frá þessari meginreglu eru þó fáeinar undantekningar, s.s. þegar aðeins eitt fyrirtæki kemur til greina sökum þess að um lögverndaðan einkarétt er að ræða, sbr. b. lið 1. mgr. 39. gr. laganna. Í slíkum tilvikum geta samningskaup án undangenginnar útboðsauglýsingar verið heimil.

Samkvæmt höfundalögum geta tölvuforrit notið sams konar verndar og bókmenntaverk í skilningi laganna. Undir höfundaverndina fellur þó einungis útfærsla þeirrar hugmyndar sem býr að baki forritinu, þ.e. frumkóðinn (e. source code) og svokallaður vélamálskóði (e. object code). Aftur á móti njóta þær hugmyndir og grundvallarforsendur sem liggja að baki einstökum þáttum í forritinu, þar með talið þær sem notendaviðmót byggja á, ekki verndar höfundalaga sem tölvuforrit að þessu leyti. Þá þurfa jafnframt almenn skilyrði höfundaréttar í öllum tilvikum að vera uppfyllt. Þannig getur t.a.m. reynst erfitt að ákvarða hve „frumlegur“ kóði getur verið að þessu marki við að útfæra hugmyndina sem þar býr að baki, svo að unnt sé að byggja á höfundavernd.

Þá geta komið upp álitaefni ef einungis ein eða fáar leiðir eru í boði til að útfæra tiltekna hugmynd – en þá hefur verið talið að lítil sem engin höfundavernd sé til staðar, enda höfundalögum ekki ætlað að veita hugmyndum vernd. Afar mikilvægt er að opinberir aðilar átti sig á regluumhverfinu hvað þetta varðar, og framkvæmi sjálfstæða skoðun á því hvort undantekningarákvæði laga um opinber innkaup séu að þessu leyti uppfyllt áður en ákvörðun er tekin um að kaupa slíka vöru eða þjónustu án útboðsauglýsingar.

Hefur dómaframkvæmd Evrópudómstólsins lagt ríkar skyldur á herðar opinberra aðila að ganga úr skugga um að lögverndaður einkaréttur komi að þessu leyti beinlínis í veg fyrir að samið verði við annan aðila á markaði. Þegar höfundavernd er annars vegar, þyrfti þannig að sýna fram á að illmögulegt væri að fá annan aðila til að útfæra sams konar tölvuforrit. Líklegra væri að slík undantekning kæmi til greina þegar fyrir væri að fara skráðu einkaleyfi fyrir hugbúnaðarlausn sem taka ætti til notkunar, en slíkt er óalgengt.

Langflest tölvukerfi í dag hafa tæknilega burði til að útfæra svokölluð gagnaskil (e. API) til að gera þeim kleift að tengjast öðrum kerfum á markaði og að sækja og miðla gögnum sín á milli. Þannig er hægt að útfæra og tengja ýmsar sjálfstæðar viðbætur eða nýjungar við undirliggjandi kerfi, með gagnaskilum. Þess ber að geta að gagnaskil í hefðbundnum skilningi veita almennt ekki aðgang að undirliggjandi hugverki þeirra kerfa sem ætlunin er að tengjast.

Mikilvægt er að opinberir aðilar þekki umrætt regluumhverfi enda eru þeir eftir atvikum ekki skuldbundnir til að kaupa þjónustu af sama aðila um allar aðlaganir og viðbætur við tiltekin undirliggjandi kerfi. Þess utan er mikilvægt að opinberir aðilar hagi samningum sínum þannig að þeir lokist ekki inni í eins konar einkakaupasamningi (e. vendor lock-in) við einstaka þjónustuveitendur, svo sem algengt er á almennum markaði, enda vandséð hvernig slíkt fær samrýmst markmiði laga um opinber innkaup.

Til baka í yfirlit