UT Messan

Starfar þú á sviði upplýsingatækni?
Við viljum endilega kynnast þér.

Hafa Samband

Fróðleikur

Lögmenn LEX eiga í nánu samstarfi við viðskiptavini, hafa frumkvæði í lausnum og ráðgjöf, faglegri nálgun verkefna og stöðugri umbótahugsun.

LEX hefur um langt skeið veitt fyrirtækjum, opinberum stofnunum og einstaklingum víðtæka þjónustu á öllum sviðum og eru lögmenn LEX á meðal fremstu sérfræðinga landsins á sviði persónuverndar, hugverka-, fjarskipta- og upplýsingatækniréttar og veita alhliða þjónustu á þessum réttarsviðum.

Þá býður LEX einnig upp á sérhæfða þjónustu til fyrirtækja sem fást við þróun hugbúnaðar og gervigreindar, gerð gagnagrunna eða notast við tæknilausnir í störfum sínum og veita auk þess þjónustu á sviði rafrænna viðskipta og fjártækni

Gervigreind og sandkassaumhverfið

6. febrúar, 2020

Gervigreind og sandkassaumhverfið – Grein eftir Láru Herborgu Ólafsdóttur sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 29. maí 2019.

Tæknilausnir á borð við gervigreind hafa verið í stöðugri framþróun undanfarna áratugi og möguleikinn að nýta stór gagnasöfn með skilvirkum hætti, auðkenna mynstur og greina hagkvæmustu lausnirnar hefur skapað fyrirtækjum og viðskiptavinum mikla möguleika. Þannig horfa fyrirtæki á flestum sviðum atvinnulífsins fram á byltingarkenndar nýjungar í þjónustu og vöru á sama tíma og krafa viðskiptavina um einfaldar lausnir og þægindi eykst. Meðal byltingarkenndra lausna í hinum ýmsu geirum má til dæmis nefna sjúkdómsgreiningar í heilbrigðisgeiranum sem eru gerðar með aðstoð gervigreindar. Þá er verið að prófa svonefndar snjallverslunarmiðstöðvar í Bandaríkjunum þar sem augnskanni er notaður til að greina þarfir og áhuga viðskiptavina út frá viðskiptasögu. Þá horfa tryggingafélög og fjármálafyrirtæki fram á byltingakenndar lausnir með aðstoð gervigreindar þegar fram í sækir.

Þrátt fyrir spennandi nýjungar og tækifæri eru þó hindranir og áskoranir við beitingu tækninnar sem fyrirtæki, einstaklingar og ekki síður löggjafinn standa frammi fyrir. Stafar það meðal annars af því að örðugt er að afmarka fyrir fram hvernig nákvæmlega gervigreind vinnur með tiltekin gögn og leiðir fram niðurstöður, enda oft líkt við svartan kassa (e. blackbox). Slíkt getur reynst áskorun þegar sífellt ríkari kröfur eru gerðar til fyrirtækja um að tryggja t.d. persónu- og neytendavernd. Þá geta komið upp atvik þar sem algrím „smitast“ af fordómum og staðalímyndum úr samfélaginu, ef slíkt endurspeglast í gögnum.

Í tilvikum af þessum toga vakna spurningar um það hvar ábyrgðin liggur þegar fyrirtæki sér ekki fyrir með hvaða hætti algrímið kemst að tiltekinni niðurstöðu, með tilheyrandi afleiðingum fyrir einstaklinga. Er mögulegt fyrir aðila sem þróa hugbúnað að tryggja að gögnin sem notast er við séu óhlutdræg? Hvernig er hægt að fylgjast með og bregðast við ef niðurstöðurnar eru ekki í samræmi við samfélagsleg viðmið og markmið laga? Það er áskorun fyrir yfirvöld á heimsvísu að útbúa ákjósanlegt regluverk og ljóst að aðilar þurfa að vinna saman að heppilegri útfærslu, enda eru tæknibreytingar örari sem aldrei fyrr. Óvissuástand getur leitt til þess að fyrirtæki halda að sér höndum þegar kemur að möguleikum gervigreindar, svo og annarra lausna, af ótta við að með notkun hennar setji fyrirtækið sig og stjórnendur sína í hættu við að brjóta í bága við lög.

Víða um heim hafa yfirvöld áttað sig á því að togstreita sem þessi getur hamlað verulega nýsköpun og samkeppni í atvinnulífinu og gripið til aðgerða í því skyni að vera í fararbroddi á sviði nýrrar tækni og gervigreindar. Í Bretlandi hefur t.d. verið farin sú leið, undir forystu breska viðskiptaháttaeftirlitsins, FCA, að opna svonefnt sandkassaumhverfi (e. regulatory sandbox) þar sem sprotafyrirtæki í bland við rótgróin fyrirtæki, einkum á sviði fjártækni, hafa fengið svigrúm til að þróa nýjar lausnir og prófa þær í takmarkaðan tíma undir eftirliti FCA, án þess endilega að uppfylla öll lagaskilyrði auk þess sem refsiramminn er vægari. Markmiðið er að greiða fyrir þróun lausnanna og sjá hvernig þær reynast áður en ráðist er í að fullgera þær, með tilheyrandi áhættu og kostnaði. Á sama tíma öðlast yfirvöld mikilvæga innsýn og frekari skilning á virkni t.d. gervigreindar sem gerir þau betur í stakk búin til þess að hafa yfirsýn og eftirlit þegar fram í sækir, til að tryggja bæði rétt einstaklinga sem og stuðla að heilbrigðri samkeppni.

Til þess að vera í fararbroddi á tímum tækninnar er mikilvægt að ríki tilhagi regluumhverfi þannig að það stuðli að nýsköpun og samkeppni. Á Íslandi er spennandi þróun á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins, m.a. á sviði gervigreindar, auk þess sem hér eru starfrækt stór gagnaver sem bjóða upp á mikla möguleika. Vikið var að tækifærum sandkassaumhverfis í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem kom út í lok síðasta árs. Má telja að að stjórnvöld hér á landi mættu gefa slíku umhverfi gaum í stefnumótun sinni til þess að styrkja frekar lagaumgjörð sem eflir nýsköpun, stuðlar að samkeppni og gerir Ísland að spennandi möguleika á heimsvísu.

Til baka í yfirlit