UT Messan

Starfar þú á sviði upplýsingatækni?
Við viljum endilega kynnast þér.

Hafa Samband

Fróðleikur

Lögmenn LEX eiga í nánu samstarfi við viðskiptavini, hafa frumkvæði í lausnum og ráðgjöf, faglegri nálgun verkefna og stöðugri umbótahugsun.

LEX hefur um langt skeið veitt fyrirtækjum, opinberum stofnunum og einstaklingum víðtæka þjónustu á öllum sviðum og eru lögmenn LEX á meðal fremstu sérfræðinga landsins á sviði persónuverndar, hugverka-, fjarskipta- og upplýsingatækniréttar og veita alhliða þjónustu á þessum réttarsviðum.

Þá býður LEX einnig upp á sérhæfða þjónustu til fyrirtækja sem fást við þróun hugbúnaðar og gervigreindar, gerð gagnagrunna eða notast við tæknilausnir í störfum sínum og veita auk þess þjónustu á sviði rafrænna viðskipta og fjártækni

Gagnanám í ljósi nýrrar höfundaréttartilskipunar

6. febrúar, 2020

Gagnanám í ljósi nýrrar höfundaréttartilskipunar – Grein eftir Láru Herborgu Ólafsdóttur sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 13. nóvember 2019.

Margir hafa heyrt því fleygt fram að gögn séu „hin nýja olía“ og upplýsingar jafnvel „hið nýja gull“, enda hefur aðgengi að upplýsingum aukist til muna á síðustu árum. Í hafsjó þeirra gagna sem til eru þarf þó að vera unnt að afmarka og greina þau svo hægt sé að nota þau í hagnýtum tilgangi, til dæmis í læknisfræðilegum rannsóknum.

Markmið svonefnds gagnanáms (e. data mining) er einmitt að finna mynstur í gagnagrunnum. Með gagnanámi geta algrím jafnvel reiknað út orsakatengsl, fylgni og líkur tiltekinna atburða.. Með nokkurri einföldun er gagnanám yfirleitt tvíþætt. Annars vegar um að ræða undirbúning þess með gerð gagnaskrár (e. data set) sem yfirleitt er útbúin með aðstoð skraparaforrits sem hleður niður og varðveitir tiltekin gögn. Hins vegar er það sjálft gagnanámið, þar sem notast er við þar til gerðan hugbúnað, sem geymir gögnin á skammtímaminni tölvunnar á meðan leitað er í þeim. Eðli málsins samkvæmt felur því gagnanám í sér afritun gagna, bæði til lengri og skemmri tíma. Þessi tilhögun hefur vakið höfundaréttarlegar spurningar, en samkvæmt höfundalögum á höfundur einkarétt til hagnýtingar verka sinna, m.a. til eintakagerðar af verki sínu og að gera þau aðgengileg almenningi í upphaflegri eða breyttri mynd, í þýðingu, annarri aðlögun eða með annarri tækni. Þegar gagnanám er annars vegar getur verið um að ræða gögn sem njóta verndar höfundaréttar eða í einhverjum tilvikum svonefndrar gagnagrunnsverndar, sem er sérstök vernd gegn afritun og útdrætti úr gagnagrunnum. Þess ber að geta að í ákveðnum tilvikum er einstaklingum þó heimilt að gera eintök af vernduðum verkum sé það gert til einkanota og ekki í fjárhagslegum tilgangi.

Hefur þessi skipan mála sætt gagnrýni í Evrópu og verið talið veikja samkeppnisstöðu evrópskra stofnana og fyrirtækja, í ljósi þess að gagnanám gegnir lykilhlutverki við rannsóknir á flestum sviðum og eru nokkuð víðtækar heimildir til þess að finna annars staðar í heiminum, s.s. í Bandaríkjunum. Þá hafa sumir gengið svo langt að telja það ekki vera eiginlega eintakagerð þegar tölva les gagnagrunna á skjótan hátt og greinir einhvers konar mynstur þeirra. Slíkt svipi frekar til þess að lesa bók, sem krefjist ekki sérstaks leyfis höfundar.

Samkvæmt nýrri tilskipun Evrópusambandsins um höfundarétt á hinum stafræna innri markaði nr. 790/2019, sem samþykkt var fyrr á árinu, hefur verið brugðist við framangreindum gagnrýnisröddum og svonefnt texta- og gagnanám gert leyfilegt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Annars vegar er um að ræða undanþágu til vísinda- og rannsóknarstofnana frá framangreindum reglum til eintakagerðar og útdráttar úr gagnagrunnum í vísindalegum tilgangi. Þau skilyrði eru sett að aðgangur að gögnunum verði að vera lögmætur og geymsla eintakanna þurfi að vera örugg og ekki í lengri tíma en nauðsynlegt er. Hins vegar er um að ræða almenna undanþágu til eintakagerðar og útdráttar við texta- og gagnanám, en auk ofangreindra skilyrða hvað varðar öryggi og tímalengd, þá er kveðið á um að undanþágan eigi ekki við hafi rétthafi með skýrum hætti áskilið sér einkarétt til slíkrar notkunar verka sinna. Hvernig slíkur áskilnaður skuli útlistaður er óljóst, en af tilskipuninni virðist mega ráða að hann geti t.a.m. verið settur fram með einhliða yfirlýsingu í notendaskilmálum vefsvæða eða í svonefndum lýsigögnum (e. metadata).

Nýmæli þessi hafa verið gagnrýnd fyrir þær sakir að rétthafar þurfi nú að bregðast sérstaklega við til að gæta formlega réttar síns og má velta því fyrir sér hvort slíkt samrýmist ákvæðum Bernarsáttmálans, sem er alþjóðasamningur um höfundarétt. Tilskipunin hefur ekki enn verið tekin upp í EES-samninginn en leiða má líkur að því að hún verði innleidd hér á landi eigi síðar en árið 2021. Ljóst er að umræddar undanþágur greiða götur fyrirtækja og stofnana við texta- og gagnanám. Engu að síður verður að telja mikilvægt að innleiðing framangreindra reglna verði skýr og tryggi jafnframt vernd rétthafa.

Til baka í yfirlit