UT Messan

Starfar þú á sviði upplýsingatækni?
Við viljum endilega kynnast þér.

Hafa Samband

Fróðleikur

Lögmenn LEX eiga í nánu samstarfi við viðskiptavini, hafa frumkvæði í lausnum og ráðgjöf, faglegri nálgun verkefna og stöðugri umbótahugsun.

LEX hefur um langt skeið veitt fyrirtækjum, opinberum stofnunum og einstaklingum víðtæka þjónustu á öllum sviðum og eru lögmenn LEX á meðal fremstu sérfræðinga landsins á sviði persónuverndar, hugverka-, fjarskipta- og upplýsingatækniréttar og veita alhliða þjónustu á þessum réttarsviðum.

Þá býður LEX einnig upp á sérhæfða þjónustu til fyrirtækja sem fást við þróun hugbúnaðar og gervigreindar, gerð gagnagrunna eða notast við tæknilausnir í störfum sínum og veita auk þess þjónustu á sviði rafrænna viðskipta og fjártækni

Hef ég ekki heyrt þetta áður?

5. febrúar, 2020

Hef ég ekki heyrt þetta áður? Grein eftir Láru Herborgu Ólafsdóttur sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 19. september 2019.

Margir kannast við að heyra nýtt lag og finnast stef þess kunnugleg. Eitt helsta viðkvæðið þegar keppnislög Söngvakeppni evrópska sjónvarpsstöðva heyrast, bæði innlend og erlend, er spurningin hvort hin og þessi laglína sé eftir atvikum ekki „stolin“. Eftir því sem árin líða, dægurlögum fjölgar og aðgengi að þeim eykst með tækniþróun, er raunar ekki sérlega skrýtið að spurningar um höfundaréttarbrot ágerast.

Samkvæmt höfundalögum sem eiga m.a. rætur að rekja til evrópskra tilskipana og alþjóðlegra reglna, á höfundur einkarétt til að gera eintök af verki sínu og til að gera það aðgengilegt almenningi í upphaflegri eða breyttri mynd, í þýðingu eða annarri aðlögun, í annarri tegund lista eða með annarri tækni.

Evrópudómstóllinn þurfti nýlega að taka afstöðu til álitaefna um stuld á laglínu en umræddur dómur gæti haft fordæmisgildi m.a. hér á landi. Þannig voru mál með vexti að notast var við tveggja sekúndna lagbút úr laginu Metall auf Metall eftir Kraftwerk í laginu Nur Mir sem framleitt var af Moses Pelham. Var lagbúturinn endurtekinn í sífellu sem taktfast undirstef og ágreiningur varð um lögmæti notkunar stefsins fyrir dómstólum í Þýskalandi þar sem dómarar á mismunandi dómstigum komust að gagnstæðri niðurstöðu.

Í dómi Evrópudómstólsins segir að almennt geti höfundur meinað öðrum að nýta sér laglínu hans án leyfis, jafnvel þótt notkunin snúi aðeins að mjög stuttum lagbút. Á hinn bóginn getur höfundur ekki meinað öðrum að nýta sér laglínu úr verki hins fyrrnefnda ef sú laglína er útfærð með þeim hætti að hún er „ógreinanleg“ í síðara verkinu, þ.e. að venjulegur hlustandi verksins geti ekki með góðu móti áttað sig á því að laglínan sé úr verki upphaflegs höfundar. Með þessi viðmið að leiðarljósi var það lagt í hendur þýskra dómstóla að kveða endanlega upp úr um lögmæti notkunar Pelham á laglínu Kraftwerk.

Draga má þá ályktun af umræddum dómi að ef laglína í einu lagi er nýtt við smíði annars lags þannig að almennur hlustandi geti greint líkindin þá má alla jafna ætla að um hugsanlegt höfundaréttarbrot sé að ræða. Dómstólar þurfa þannig að meta hverju sinni hvort fyrrgreind skilyrði séu uppfyllt. Verður að telja að sönnunarstaða í slíkum málum geti reynst talsvert erfið og má jafnvel telja að laglínan þurfi að vera allt að því nákvæmlega sú sama, enda er ekki óheimilt að semja lagstúf sem er undir áhrifum annarra verka svo fremi sem ekki sé um beina afritun að ræða. Önnur atriði sem skipt gætu máli í þessu tilliti er lengd stefsins og hvort áhersla sé lögð á hið umþrætta stef í síðara verki, t.d. með endurtekningum. Þá má ætla að álitamál af þessum toga séu algengari þegar tvö tónverk eru innan sömu tónlistarstefnu heldur en þegar tveggja sekúndna stef í sígildu tónverki virðist jafnframt vera fyrir hendi í verkum af öðrum toga.

Velta má því fyrir sér hver áhrif tækniþróunar, s.s. í tengslum við notkun gervigreindar við tónsmíðar, muni hafa í þessu sambandi til framtíðar litið. Þannig má ætla að áhætta á að slík verk brjóti á réttindum annarra aukist, enda notast gervigreindin við gífurlegt magn af gögnum yfir mismunandi verk. Á hinn bóginn gæti notkun slíkrar tækni jafnframt auðveldað höfundum að finna hvort tiltekin stef megi finna í öðrum verkum og þannig auðveldað þeim sporin. Þá verður að horfa til þess að tónsmiðir geta gerst sekir um höfundaréttarbrot jafnvel þótt þeir hafi aldrei heyrt verkið þar sem hið umdeilda stef má finna. Höfundaréttur spyr jafnan ekki um það með hvaða hætti höfundaréttarbrot á sér stað heldur er sú skylda lögð á tónsmiði að ganga úr skugga um það að þeirra tónverk brjóti ekki á rétti annarra höfunda, eins örðugt og það kann að reynast í framkvæmd.

Til baka í yfirlit