UT Messan

Starfar þú á sviði upplýsingatækni?
Við viljum endilega kynnast þér.

Hafa Samband

Fróðleikur

Lögmenn LEX eiga í nánu samstarfi við viðskiptavini, hafa frumkvæði í lausnum og ráðgjöf, faglegri nálgun verkefna og stöðugri umbótahugsun.

LEX hefur um langt skeið veitt fyrirtækjum, opinberum stofnunum og einstaklingum víðtæka þjónustu á öllum sviðum og eru lögmenn LEX á meðal fremstu sérfræðinga landsins á sviði persónuverndar, hugverka-, fjarskipta- og upplýsingatækniréttar og veita alhliða þjónustu á þessum réttarsviðum.

Þá býður LEX einnig upp á sérhæfða þjónustu til fyrirtækja sem fást við þróun hugbúnaðar og gervigreindar, gerð gagnagrunna eða notast við tæknilausnir í störfum sínum og veita auk þess þjónustu á sviði rafrænna viðskipta og fjártækni

Bitakeðja (e. blockchain) til varnar hugverkaréttindum?

6. febrúar, 2020

Bitakeðja (e. blockchain) til varnar hugverkaréttindum? Grein eftir Láru Herborgu Ólafsdóttur sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 18. október 2018.

Á tímum sífelldrar tækniþróunar hafa hugverkaréttindi á margan hátt farið halloka og framfylgd reglnanna sem ætlað er að vernda hugverk ekki reynst nægilega skilvirk. Hafa sérfræðingar velt fyrir sér ýmsum nýstárlegum leiðum til að gæta hugverkaréttinda með skilvirkari hætti á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar. Blockchain, sem á íslensku er stundum nefnt bita- eða færslukeðja, er tækni sem m.a. hefur verið litið til í þessum tilgangi.

Bitakeðjutækni kom fyrst fram á sjónarsviðið fyrir um áratug síðan og má skilgreina sem rafrænan gagnagrunn sem geymir upplýsingar og færslur í dreifðri og samnýttri færsluskrá. Síðustu tvö ár hefur útbreiðsla tækninnar náð nýjum hæðum, enda knýr umrædd tækni rafmyntir á borð við Bitcoin og Ethereum, sem margir kannast við. Bitakeðja er gagnagrunnur, sem heldur skrá yfir hverja færslu sem gerð er í sambandi við bita (e. block) sem eru eins konar tímaskráð gögn, í gegnum svokallað jafningjanet (e. peer-to-peer) sem er sérstök tilhögun um deilingu gagna þar sem hver tölva er notuð sem miðlari fyrir aðra notendur, sem leiðir til þess að gögnum er deilt á milli notenda í stað þess að vera með einn höfuðmiðlara. Hver biti er svo byggður ofan á eldri bita og hefur að geyma öll gögn sem vistuð eru frá upphafi. Þar sem allir bitar í keðjunni eru tengdir og eldri bitarnir hafa að geyma upplýsingar fyrir bitana sem á eftir koma, er nær ómögulegt að breyta bitakeðjunni. Tæknin sem slík er nokkuð öflug til varnar tölvuárásum þar sem enginn einn höfuðþjónn er til staðar. Annað einkenni tækninnar er gagnsæi en keðjan er raunar aðgengileg skrá yfir öll fyrri viðskipti og aðgengileg notendum sem gerir þeim kleift að rekja sérhver viðskipti og þar með er óþarft að hafa miðstýrðan höfuðþjón sem geymir sömu upplýsingar.

Sérfræðingar hafa bent á að tæknin geti komið að góðum notum þegar skráning hugverkaréttinda er annars vegar, svo sem fyrir vörumerki, einkaleyfi og eftir atvikum hönnun. Í stað þess að slík réttindi væru (einungis) skráð hjá þar til gerðum stofnunum yrðu þau skráð á bitakeðju þar sem hægt væri að útbúa óbreytanlega skrá sem útlistaði þróun og líftíma réttindanna með öllum upplýsingum, t.d. varðandi skráningu, leyfisveitingar, sölu réttinda o.fl. Ef bitakeðjutækni væri notuð, t.d. við skráningu vörumerkja, væri eftir atvikum mögulegt að tilkynna þar til gerðum stofnunum um notkun vörumerkja á markaði, ásamt þeim sérkennum sem þau gætu hafa öðlast. Slík tækni gæti auk þess reynst gagnleg ef álitamál kæmu upp, svo sem varðandi brottfall réttinda vegna notkunarleysis eða vegna álitamála í tengslum við sölu, samruna eða yfirtöku.

Þá getur tæknin einnig komið að gagni þegar um ræðir höfundaverndað efni sem ekki þarf að skrá sérstaklega. Með því að skrá slík verk á bitakeðju gætu höfundar þeirra útbúið rafræn fótspor fyrir verkin sem væri um leið tímastimpill og óbreytanleg skrá varðandi tilurð þeirra ásamt upplýsingum um höfund og frekari upplýsingar sem teldust nauðsynlegar. Er slík tækni raunar þegar í bígerð hvað varðar ljósmyndir, sem býður upp á nýja möguleika með aðstoð gervigreindar. Hugmyndin er sú að eigandi myndar geti hlaðið henni upp á bitakeðju og gervigreindarforrit skannar veraldarvefinn með þar til gerðu auðkenni ljósmyndarinnar m.a. til að kanna hvort óleyfilegar myndir séu í umferð.

Fyrr á þessu ári lýsti Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins því yfir að fylgst yrði náið með þróun tækninnar og möguleikum hennar, með tilliti til nauðsynlegrar stefnumótunar og reglusetningar. Margar hugverkaréttarstofnanir á heimsvísu, þ.m.t. Hugverkastofa Evrópusambandsins, kanna nú þann möguleika að nota bitakeðjutæknina í starfsemi sinni. Verður bæði fróðlegt og spennandi að fylgjast með þróuninni, sérstaklega innan Evrópu þar sem stefnt er að aukinni samræmingu reglna á sviði hugverkaréttar. Þrátt fyrir að óneitanlega þurfi úr leysa úr lagalegum álitaefnum við beitingu tækninnar, svo sem varðandi lagaval og lögsögu, getur tæknin eftir atvikum skapað tækifæri til framtíðar litið, þegar kemur að skilvirkni reglna á sviði hugverkaréttar.

Til baka í yfirlit