LEX Lögmannsstofa

Aðgerðir stjórnvalda til að mæta tímabundnu ástandi á vinnumarkaði

Minnisblað frá LEX lögmannsstofu / Kristínu Edwald hrl. / Erlu S. Árnadóttur hrl.

Minnisblaði þessu er ætlað að veita upplýsingar um aðgerðir íslenskra stjórnvalda einkum vegna aðstæðna er skapast hafa vegna röskunar á starfsemi fyrirtækja vegna SARS-CoV-2 veirunnar. Minnisblaðið er uppfært eftir því sem tilefni gefst til.

MINNISBLAÐ

Frá: LEX lögmannsstofu / Kristínu Edwald hrl. / Erlu S. Árnadóttur hrl.
Dags: 14. maí 2020

Efni: Aðgerðir stjórnvalda til að mæta tímabundnu ástandi á vinnumarkaði

Minnisblaði þessu er ætlað að veita upplýsingar um aðgerðir íslenskra stjórnvalda einkum vegna aðstæðna er skapast hafa vegna röskunar á starfsemi fyrirtækja vegna SARS-CoV-2veirunnar. Minnisblaðið er uppfært eftir því sem tilefni gefst til.

Fimmtudagur 14. maí

Nýverið kynnti ríkisstjórn viðbætur við aðgerðir stjórnvalda vegna áhrifa SARS-CoV-2 veirunnar á íslenskt efnahagslíf, auk nýrra aðgerða. Í vikunni voru svo samþykkt lög er vita að sumum þessara aðgerða. Annars vegar er um að ræða breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru (frekari aðgerðir) og hins vegar lög um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Eftirfarandi er umfjöllun um þær aðgerðir sem kynntar hafa verið og ætlaðar eru fyrirtækjum sem og þær lagabreytingar sem liggja fyrir. Tekið er fram að frumvörp til laga í því skyni að lögfesta sumar þessara ráðstafana hafa ekki verið lögð fram á Alþingi þegar þetta er ritað.

1) Hlutastarfaleið framlengd

Heimild sem tók gildi fyrr í vor um að heimilt sé að greiða atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli, án þess að föst laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall komi til skerðingar á fjárhæð bóta, verður framlengd. Skilyrði er að fyrra starfshlutfall starfsmanns hafi lækkað um 20% hið minnsta og að starfsmaður hafi haldið að lágmarki 25% starfshlutfalli. Heimildin mun gilda með óbreyttu sniði út júní en frá því tímamarki verður lágmarkið um starfshlutfall starfsmanns 50%. Mun hlutastarfaleiðin verða í boði til 31. ágúst í stað 1. júní eins og áður var fyrirhugað.

Haft hefur verið eftir forsætisráðherra að lögum um hlutastarfaleið verði breytt til að koma í veg fyrir að stöndug fyrirtæki nýti sér hana. Einnig að sett yrðu frekari skilyrði varðandi arðgreiðslur og kaup í eigin bréfum. Til hliðsjónar má sjá að skilyrði fyrir stuðningslánum til lítilla og meðalstórra fyrirtækja kveða m.a. á um að rekstraraðili megi ekki hafa greitt út arð, óumsamda kaupauka, keypt eigin hlutabréf, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða veitt eigendum eða nákomnum aðilum lán eða aðrar greiðslur sem ekki eru nauðsynlegar til að halda við rekstri frá 1. mars 2020.

2) Einfaldari reglur um fjárhagslega endurskipulagningu

Settar verða tímabundið einfaldari reglur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Breytingarnar munu m.a. lúta að skilyrðum fjárhagslegrar endurskipulagningar, beiðni og umfjöllun um hana, tímafrestum, heimildum til ráðstafana og riftunar- og vanefndaheimildum viðsemjenda. Byggt verður á núgildandi grunnreglum en breytingarnar munu miða að því að fyrirtæki geti komist í skjól á einfaldan hátt meðan verið er að meta stöðu þeirra. Lagafrumvarp þessu að lútandi hefur ekki verið lagt fram.

Þá var með nýsamþykktum lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru (frekari aðgerðir) lögum um tekjuskatt nr. 90/2003 breytt á þann veg að lögaðilum og einstaklingum í atvinnurekstri er veitt heimild til að, í stað þess að telja að fullu til tekna eftirgjöf skulda umfram rekstrartöp vegna greiðsluerfiðleika á árunum 2020, 2021 og 2022, færa á milli tekjuáranna 2020 til og með 2022 þann hluta eftirgjafar sem er umfram yfirfæranleg rekstrartöp og rekstrartap ársins, fyrningar og niðurfærslu. Skilyrði fyrir slíkri yfirfærslu er að skattaðili hafi fyrnt að fullu allar fyrnanlegar eignir sínar og nýtt mögulegar hámarksniðurfærslur á viðskiptakröfum og vörubirgðum. Þá er einnig skilyrði að arði sé ekki úthlutað vegna tekjuáranna 2020 til og með 2022. Skatturinn getur heimilað skattaðila að taka þátt í samsköttun og sameiningu við aðra skattaðila eða skiptingu upp í fleiri félög að uppfylltum skilyrðum þessa ákvæðis. Nýta skal allar heimildir samkvæmt ákvæðinu áður en til samsköttunaruppgjörs kemur.

Standi eftir í árslok 2022 eftirgjöf skulda sem er hærri en 500 millj. kr. er skattaðila heimilt að færa það sem umfram er til tekna með jöfnum fjárhæðum á tekjuárunum 2023 til og með 2027. Sé eftirgjöf lægri en 500 millj. kr. í lok árs 2022 færist hún ekki til tekna.

Skilyrði er að til skuldanna hafi verið stofnað í beinum tengslum við atvinnureksturinn.

Ákvæðið gildir ekki um eftirgjöf skulda milli móður- og dótturfélaga að því undanskildu þegar fjármálafyrirtæki yfirtaka félög til að tryggja fullnustu kröfu.

3) Greiðsla launa á uppsagnarfresti

Fyrirtækjum verður gefinn kostur á að sækja um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Stuðningurinn mun að hámarki verða 633.000 kr. á mánuði vegna hvers starfsmanns í allt að þrjá mánuði auk orlofs og einskorðast við fyrirtæki sem hafa orðið fyrir að lágmarki 75% tekjufalli og sjá fram á áframhaldandi tekjufall út þetta ár hið skemmsta. Hámarkshlutfall stuðnings ríkisins verður 85%.

Nánari skilyrði munu vita að rekstrarhæfi fyrirtækis og um endurkröfurétt, en lagafrumvarp þessu að lútandi hefur ekki verið lagt fram.

4) Lokunarstyrkir

Á grundvelli nýsamþykktra laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru munu stjórnvöld styrkja rekstraraðila sem var gert að leggja niður starfsemi vegna sóttvarnareglna. Fjárhæð lokunarstyrks skal vera jafnhá rekstrarkostnaði tímabilið 24. mars til 3. maí 2020. Hámarksupphæð er þó á hvern aðila 800 þús. kr. á hvern starfsmann hjá rekstraraðila í febrúar 2020 og 2,4 millj. kr. á hvern rekstraraðila. Skilyrði fyrir styrknum eru að rekstraraðili hafi þurft að loka starfsemi vegna sóttvarnarreglna, hafi orðið fyrir 75% tekjufalli í apríl milli ára og haft a.m.k. 4,2 millj. kr. í tekjur 2019. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir 1. apríl 2019 skulu tekjur hans í apríl 2020 bornar saman við meðaltekjur hans á 30 dögum frá því hann hóf starfsemi til loka febrúar 2020 og umreikna skal tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll. Þá má rekstraraðili ekki vera í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019 og álagðir skattar og gjöld mega ekki byggjast á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan fyrirtæki hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skal rekstraraðili, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum og upplýst um raunverulega eigendur.

Lokunarstyrkur telst til skattskyldra tekna samkvæmt lögum um tekjuskatt og skal beina umsókn um hann beint til Skattsins í síðasta lagi 1. september 2020. Við afgreiðslu umsóknar getur Skatturinn farið fram á að rekstraraðili sýni með rökstuðningi og gögnum fram á rétt sinn til lokunarstyrks.

Fái rekstraraðili lokunarstyrk umfram rétt sinn ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var með vöxtum frá greiðsludegi. Dráttarvextir leggjast á kröfu um endurgreiðslu ef hún er ekki innt af hendi innan mánaðar frá dagsetningu endurákvörðunar Skattsins. Hafi rekstraraðili veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rekstrarkostnað eða upplýsingagjöf hans hefur að öðru leyti verið svo áfátt að áhrif hafi haft við ákvörðun um styrk skal Skatturinn gera honum að greiða 50% álag á kröfu um endurgreiðslu. Álagið skal þó fella niður ef aðili færir rök fyrir því að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann veitti réttar upplýsingar eða kæmi leiðréttingu á framfæri við Skattinn.

5) Stuðningslán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja

Litlum og meðalstórum fyrirtækjum verður, á grundvelli hinna nýju laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, gert kleift að sækja um allt að 40 millj. kr. óverðtryggð stuðningslán á sömu vöxtum og sjö daga bundin innlán lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands, sem nú eru 1,75%. Lánin verða veitt í gegnum viðskiptabankana og ábyrgist ríkissjóður að fullu stuðningslán að 10 millj. kr. til hvers rekstraraðila og vexti og 85% af þeirri fjárhæð stuðningsláns til tiltekins rekstraraðila sem er umfram 10 millj. króna.

Skilyrði fyrir slíku láni eru að tekjur á 60 daga samfelldu tímabili frá 1. mars til 30. september 2020 hafi verið, eða fyrirséð er að þau verði, a.m.k. 40% lægri en á sama 60 daga tímabili 2019. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi svo seint að ekki er unnt að bera saman tekjur hans á sama 60 daga tímabili bæði ár skulu tekjur hans á 60 daga samfelldu tímabili 2020 bornar saman við meðaltekjur hans á 60 dögum frá því að hann hóf starfsemi til loka febrúar 2020. Tekjur rekstraraðila skulu á árinu 2019 hafa verið að lágmarki 9 millj. kr. og að hámarki 1.200 millj. kr. en hafi aðili hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll. Þá skal launakostnaður aðila hafa verið a.m.k. 10% af rekstrarkostnaði hans sama ár, en hafi hann hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna launa- og rekstrarkostnað þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.

Rekstraraðili má ekki hafa greitt út arð, óumsamda kaupauka, keypt eigin hlutabréf, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða veitt eigendum eða nákomnum aðilum lán eða aðrar greiðslur sem ekki eru nauðsynlegar til að halda við rekstri og rekstrarhæfi frá 1. mars 2020 og skuldbindur aðili sig til að svo verði ekki þann tíma sem ábyrgðar ríkissjóðs nýtur við.

Rekstraraðili má ekki vera í vanskilum við lánastofnun sem hafa staðið lengur en 90 daga og má ekki vera í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Þá skal rekstraraðili, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum, upplýst um raunverulega eigendur og staðið skil á skýrslu um eignarhald á CFC-félagi. Aukinheldur má rekstraraðili ekki hafa verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta og hann þarf að uppfylla hlutlæg viðmið sem ráðherra skilgreinir í reglugerð og gefa tilefni til að ætla að hann verði rekstrarhæfur þegar bein áhrif heimsfaraldurs eru liðin hjá.

Umsókn um stuðningslán skal beint, í gegnum miðlæga þjónustugátt á vefnum, til lánastofnunar sem hefur samið við Seðlabanka Íslands. Rekstraraðili skal við umsókn staðfesta að hann uppfylli skilyrðin að framan, og einnig eftir atvikum þau sem kunna að verða útfærð í reglugerð ráðherra, og að upplýsingarnar sem hann skilar og liggja til grundvallar ákvörðun fjárhæðar um lán séu réttar og að honum sé kunnugt um að það geti varðað álagi, sektum eða fangelsi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Ríkisábyrgð heldur þó gildi sínu gagnvart lánveitanda þótt í ljós komi að stuðningslán hafi verið veitt án þess að öll skilyrði fyrir ríkisábyrgð hafi verið uppfyllt enda liggi fyrir staðfesting lántaka, og ekki verður sýnt fram á að lánveitandi hafi bersýnilega mátt ætla að umsókn byggðist á ófullnægjandi upplýsingum.

Lánastofnun afgreiðir stuðningslán að 10. millj. kr. til rekstraraðila sem fullnægir framangreindum skilyrðum og er heimilt, en ekki skylt, að veita rekstraraðila hærra stuðningslán ef það samræmist skilyrðunum og, eftir atvikum, viðmiðum sem lánastofnun setur um veitingu slíkra lána á grundvelli samnings við Seðlabanka Íslands.

Lánstími stuðningslána skal að lágmarki vera 30 mánuðir og skal nánar kveðið á um lánstíma stuðningslána í reglugerð. Stuðningslán má aðeins nýta til að standa undir rekstrarkostnaði lánþega og er óheimilt að nýta þau til að borga af eða endurfjármagna önnur lán. Stuðningslán er óverðtryggt og ber vexti sem eru jafnháir vöxtum á sjö daga bundnum innlánum lánastofnana Seðlabanka Íslands hverju sinni, sem eru nú 1,75%. Hins vegar er í samningi lánastofnunar við Seðlabanka Íslands heimilt að kveða á um sérstakt álag á vexti sé lánsfjárhæð stuðningsláns hærri en 10 millj. kr. Stuðningslán skal að jafnaði endurgreitt með 12 jöfnum greiðslum síðustu 12 mánuði lánstímans, með fyrirvara um vanefndaúrræði lánastofnunar. Lántaka er þó heimilt að greiða upp eða inn á stuðningslán án uppgreiðsluþóknunar hvenær sem er á lánstíma.

Hafi rekstraraðili fengið stuðningslán umfram það sem hann átti rétt á ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var með áföllnum vöxtum. Dráttarvextir leggjast á kröfu um endurgreiðslu ef hún er ekki innt af hendi innan eins mánaðar frá því að lánastofnun krafði rekstraraðila um endurgreiðslu. Telji lánastofnun að rekstraraðili hafi veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar svo sektum eða fangelsi geti varðað skal hún kæra málið til lögreglu.

6) Jöfnun tekjuskatts. Breyting á lögum um tekjuskatt nr. 90/2003.

Lögaðilum með takmarkaða ábyrgð og gagnkvæmum vátryggingar- og ábyrgðarfélögum, kaupfélögum, öðrum samvinnufélögum og samvinnufélaga-samböndum sem bera tekjuskatt við álagningu á árinu 2020 er heimilt að fresta að hluta til eða að öllu leyti um eitt ár greiðslu tekjuskatts allt að 20 millj. kr., enda sé fyrirsjáanlegur taprekstur á yfirstandandi rekstrarári.

Reikna skal skatteign við álagningu á árinu 2021 hjá lögaðila sem frestar greiðslu, hafi orðið tap á rekstri samkvæmt niðurstöðu álagningar á tekjur ársins 2020. Skatteign reiknast 20% af rekstrartapi við álagningu á árinu 2021 og skal henni jafnað sem nemur allt að frestuðum skatti.

Skilyrði fyrir slíkri frestun eru að arði sé ekki úthlutað eða eigin hlutir keyptir á meðan krafan er óuppgerð við ríkissjóð. Enn fremur er það skilyrði frestunar að lögaðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga 31. desember 2019 og að álagðir skattar og gjöld byggist ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskatts-skýrslum, síðastliðin þrjú ár eða síðan hann hóf starfsemi.

Lögaðili skal tilkynna Skattinum um fjárhæð þeirrar skattgreiðslu sem hann kýs að fresta fyrir 10. nóvember 2020.

Nemi frestuð skattgreiðsla hærri fjárhæð en jöfnuð verður skulu dráttarvextir falla á fjárhæð sem nemur mismuninum frá þeim tíma þegar hann hefði fallið í gjalddaga hefði frestun ekki komið til. Í slíkum tilvikum er Skattinum þó heimilt að fella niður dráttarvexti ef lögaðili getur sýnt fram á að hann hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að skatteign næmi að lágmarki fjárhæð jafnri hinni frestuðu skattgreiðslu.

Engir vextir leggjast á fjárhæð sem jöfnuð er.

7) Breyting á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki nr. 152/2009. Breyting til bráðabirgða á frádráttarhlutfalli frá álögðum tekjuskatti.

Breytingin lýtur að frádráttarhlutfalli frá álögðum tekjuskatti nýsköpunarfyrirtækja árin 2021 og 2022, vegna útlagðs kostnaðar þeirra á rannsóknar- og þróunarverkefnum, sem þau eru eigendur að, og hlotið hafa staðfestingu Rannsóknamiðstöðvar Íslands. Í tilviki lítilla og meðalstórra fyrirtækja hækkar hlutfallið upp í 35% af útlögðum kostnaði vegna þessara verkefna en í 25% í tilviki stórra fyrirtækja, enda sé um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt.

Hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022 skal vera samtals 1,1 ma. kr., þar af skal heimilt að telja til þeirrar fjárhæðar allt að 200 millj. kr. vegna aðkeyptrar rannsóknar eða þróunarvinnu.

8) Breyting á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Réttur sveitarfélaga eða stofnana og félaga í eigu þeirra til endurgreiðslu vsk. af byggingarvinnu.

Sveitarfélög eða stofnanir og félög sem eru alfarið í eigu þeirra öðlast tímabundinn rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað vegna byggingar, viðhalds eða endurbóta á öðru húsnæði en íbúðar- og frístundahúsnæði, sem alfarið er í eigu þeirra, til þess að liðka fyrir markmiði sveitarfélaga um flýtiframkvæmdir.

Um er að ræða viðbót við þær breytingar sem gerðar voru á lögunum með í mars og fjallað er hér að neðan.

9) Breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í sjóðum rýmkuð.

Heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu rýmkuð með þeim hætti að að lífeyrissjóðum verður heimilt að eiga allt að 35% af hlutdeildarskírteinum eða hlutum í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu eða einstakri deild þeirra, þó aldrei umfram 1% heildareigna sinna í hverjum sjóði um sameiginlega fjárfestingu.

Heimildin nær til sjóða um sameiginlega fjárfestingu sem eingöngu fjárfesta í litlum eða meðalstórum fyrirtækjum í skilningi laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Innlausnir í sjóðunum skulu fyrst fara fram að fimm árum liðnum frá því að þeir hófu fjárfestingar.

Heimildin gildir til 1. janúar 2025 en þó verður lífeyrissjóði ekki gert að innleysa hlutdeildarskírteini eða hluti sem fjárfest var í á grundvelli hennar.

10) Breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995.

Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er veitt heimild til að veita framlög til sveitarfélaga vegna framkvæmda, sem hafa þann tilgang að bæta aðgengismál fatlaðra í byggingum og útisvæðum á vegum sveitarfélaga. Einnig er Jöfnunarsjóði sveitarfélaga veitt heimild til að nýta fjármuni sjóðsins til að greiða almenn framlög, grunnskólaframlög og framlög vegna málefna fatlaðs fólks á árinu 2020.

11) Breyting á lögum um tímabundnar greiðslur vegna einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir nr. 24/2020. Tímabil framlengt.

Tímabilið sem lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir er framlengt þannig að þau taki til þeirra tilvika þegar framangreindir einstaklingar sæta sóttkví á tímabilinu 1. febrúar 2020 til og með 30 september 2020. Í samræmi við þetta er frestur til að skila umsókn um greiðslur samkvæmt lögunum færður frá 1. júlí 2020 til 31. desember 2020.

Þá er kveðið á um að ekki komi til greiðslna samkvæmt lögunum hafi launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur farið til útlanda þrátt fyrir að honum hafi mátt vera ljóst þegar hann fór að hann þyrfti við heimkomuna að sæta sóttkví enda hafi heilbrigðisyfirvöld ákveðið að þeir sem dvelji í viðkomandi landi þurfi að sæta sóttkví við heimkomu.

Þriðjudagur 31. mars

Í gærkvöldi voru samþykkt á Alþingi lög um breytingu á ýmsum lögum til að hrinda í framkvæmd og úfæra nánar boðuðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna áhrifa aðstæðna á íslenskt efnahagslíf.

Eftirfarandi er nánari umfjöllun um meginefni laganna með áherslu á rekstrarumhverfi fyrirtækja.

1) Breyting á lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Greiðslufrestur skatts í staðgreiðslu.

Launagreiðendur, sem eiga við verulega rekstrarörðugleika að stríða á árinu 2020 vegna skyndilegs og ófyrirséðs tekjufalls sem leiðir af almennum samdrætti innanlands og á heimsvísu, geta sótt um frestun á skilum á allt að þremur greiðslum af afdreginni stað- greiðslu af launum sem eru á gjalddaga 1. apríl 2020 til og með 1. desember 2020. Gjalddagi og eindagi þeirra greiðslna sem frestað er að uppfylltum skilyrðum laganna er 15. janúar 2021.

Skilyrði fyrir frestun greiðslu á greiðslu skatts í staðgreiðslu eru þau að launagreiðandi sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga
31. desember 2019 og að álagðir skattar og gjöld byggist ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisauka- skattsskýrslum til Skattsins, sl. þrjú ár eða síðan starfsemi hófst.

Launagreiðendur sem telja sig uppfylla skilyrði um greiðslufrestun skulu óska hennar við eða fyrir skil staðgreiðsluskilagreinar fyrir viðkomandi mánuð, en við það fellur greiðsla ekki í gjalddaga og eindaga fyrr en 15. janúar 2021. Umsókn launagreiðanda um frestun skal hafa borist í síðasta lagi á eindaga viðkomandi greiðslutímabils á því formi sem Skatturinn ákveður. Framangreint breytir þó ekki skyldu launagreiðanda til að standa skil á viðkomandi skilagreinum heldur felur ákvæðið í sér greiðslufrest á grundvelli skila- greina sem skilað er með hefðbundnum hætti.

Við afgreiðslu og endurskoðun umsóknar er heimilt að fara sérstaklega fram á að um- sækjandi sýni með rökstuðningi og gögnum fram á að við verulega rekstrarörðugleika sé að glíma, svo sem með hliðsjón af lækkun á virðisaukaskattsskyldri veltu, og að skilyrði heimildar fyrir frestun séu að öðru leyti uppfyllt. Heimilt er að hafna umsókn sé talið að skilyrðum laganna sé ekki fullnægt. Almenn afgreiðsla á greiðslufrestun sætir síðari endurskoðun og felur því ekki í sér staðfestingu á því að skilyrði hennar hafi á afgreiðsludegi verið uppfyllt.

Lögin kveða á um að ef arði er úthlutað eða eigin hlutir keyptir á árinu 2020 eða úttekt eigenda innan ársins 2020 fer umfram reiknað endurgjald þeirra þá verði ekki fallist á að um verulega rekstrarörðugleika sé að ræða í skilningi ákvæðisins og skilyrði fyrir greiðslufresti skatts í staðgreiðslu þ.a.l. ekki uppfyllt.

Leiði síðari skoðun í ljós að skilyrði greiðslufrestunar hafi ekki verið til staðar þá skal launagreiðandi sæta álagi til viðbótar upphæð skilafjárins í samræmi við upphaflega gjalddaga og eindaga hvers greiðslutímabils sem greiðslu var frestað fyrir. Umrætt álag er 1% af upphæð vanskilafjár fyrir hvern dag eftir eindaga, þó ekki hærra en 10%, sbr. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, auk dráttarvaxta. Launagreiðandi og forsvarsmenn hans skulu hins vegar ekki sæta öðrum viðurlögum.

Verði launagreiðandi sem frestað hefur greiðslum til eindaga 15. janúar 2021 fyrir miklu tekjufalli á rekstrarárinu 2020 samanborið við fyrra rekstrarár getur hann óskað eftir auknum fresti og dreifingu þessara greiðslna fram til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021. Ósk um aukinn frest og greiðsludreifingu skal launagreiðandinn beina til Skattsins fyrir 15. janúar 2021, sem við afgreiðslu umsóknar skal m.a. líta til virðisauka- skattsskila umsækjanda á árinu 2020 og umfangs starfseminnar að öðru leyti.

Heimildin á ekki við um staðgreiðsluskil opinberra aðila eða staðgreiðslu samkvæmt lögum um fjársýsluskatt.

2) Breyting á lögum nr. 113/1990 um tryggingagjald. Frestun staðgreiðslu tryggingagjalds.

Launagreiðendum, sem eiga við tímabundna rekstrarörðugleika að stríða vegna tekju- falls, er heimilt að óska eftir frestun á allt að þremur greiðslum á staðgreiðslu trygginga- gjalds, sem eru á gjalddaga 1. apríl 2020 til og með 1. desember 2020. Gjalddagi og eindagi greiðslna sem frestun tekur réttilega til er 15. janúar 2021.

Verði launagreiðandi sem frestað hefur greiðslum, að uppfylltum skilyrðum, fyrir miklu tekjufalli á rekstrarárinu 2020 samanborið við fyrra rekstrarár getur hann óskað eftir auknum fresti og dreifingu greiðslna sem hefur verið frestað fram til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021. Ósk um aukinn frest og greiðsludreifingu skal launagreiðandinn beina til Skattsins fyrir 15. janúar 2021.

Sömu skilyrði um undanþágur og framkvæmd gilda og um frestun á greiðslu skatts í staðgreiðslu.

3) Breyting á lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt. Heimild til ráðherra til að fella niður eða lækka fyrirframgreiðslu á tekjuskatti atvinnureksturs.

Ráðherra heimilt að setja reglugerð og ákvarða að á árinu 2020 megi lækka eða fella niður fyrirframgreiðslu gjaldenda upp í tekjuskatt sem lagður er á, á því ári vegna tekna ársins 2019 eða ákvarða aðra gjalddaga fyrirframgreiðslna en mælt er fyrir um í tekjuskattslögunum.

4) Breyting á tollalögum nr. 88/2005. Innheimta tollafgreiðslugjalds. og aðflutningsgjöld.

Tollafgreiðslugjald verður ekki innheimt vegna tollafgreiðslu skipa og flugvéla utan almenns afgreiðslutíma til og með 31. desember 2021

Breyting er gerð á gjalddaga aðflutningsgjalda og verður honum tvískipt hjá aðilum sem þegar njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum samkvæmt tollalögum, þ.e. aðilar sem skráðir eru á virðisaukaskattskrá eru í skilum við ríkissjóð og flytji inn vörur í atvinnuskyni. Á það við um uppgjörtímabilin mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október og nóvember og desember á árinu 2020. Verður gjalddaginn 5. dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils,

5) Breyting á lögum nr. 50/1998 um virðisaukaskatt. Endurgreiðsla virðisauka- skatts til byggjenda og eigenda íbúðarhúsnæðis.

Virðisaukaskattur verður endurgreiddur af ákveðinni þjónustu sem innt er af hendi frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020. Meðal skilyrða er að seljandi þjónustu sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað. Þá tekur endurgreiðslan ekki til virðisaukaskatts sem færa má til innskatts.

Frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 skal endurgreiða

 • byggjendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt
  – af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils á byggingarstað.
  – af þjónustu sem veitt er innan þess tímabils vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu þess háttar húsnæðis
 • eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt
  – af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils við endurbætur eða viðhald þess,
  – af þjónustu sem veitt er vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald þess háttar húsnæðis.
 • eigendum og leigjendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt
 • – af vinnu manna vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðar- húsnæðis.

 • einstaklingum utan rekstrar 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt
  – af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils vegna bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Skilyrði endurgreiðslu er að fólksbifreið sé í eigu umsækjanda og að fjárhæð vinnuliðar sé að lágmarki 25.000 kr. án virðisaukaskatts og að reikningum sé framvísað.

Einnig skal endurgreiða mannúðar- og líknarfélögum, íþróttafélögum, björgunarsveitum, landssamtökum björgunarsveita og slysavarnadeildum og einstökum félagseiningum sem starfa undir merkjum samtakanna 100% þess virðisaukaskatts sem þessir aðilar hafa greitt vegna vinnu manna sem innt er af hendi á viðkomandi tímabili á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra, sem og af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu á slíku mannvirki. Endur- greiðsla þessi tekur til mannvirkja sem að yfirgnæfandi hluta eru nýtt í þágu meginstarf- semi umsækjanda samkvæmt samþykktum hans. Verði breyting á forsendum endur- greiðslu innan tíu ára frá því að framkvæmd fór fram, svo sem ef viðkomandi mannvirki er selt eða tekið til annarrar notkunar en varðar meginstarfsemi umsækjanda skal virðis- aukaskattur leiðréttur og umsækjandi endurgreiða ríkissjóði þá fjárhæð sem hann hefur móttekið í formi endurgreiðslu. Endurgreiðsla tekur ekki til íbúðar- og frístundahúsnæðis eða mannvirkja sem einkum eru notuð í atvinnustarfsemi í samkeppni við annan atvinnurekstur eða starfa af kostnaði vegna lögbundinna skyldna opinberra aðila. Þá tekur endurgreiðslan ekki til virðisaukaskatts sem telja má til innskatts. Lögin kveða á um frekari skilyrði.

Þá er heimilt á gjalddaga virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilanna mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október og nóvember og desember á árinu 2020, að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu allan virðisaukaskatt vegna viðkomandi upp- gjörstímabils, þótt engum eða einungis hluta af gjaldföllnum virðisaukaskatti hafi á þeim tíma verið skilað, sbr. ákvæði til bráðabirgða XVII í tollalögum, nr. 88/2005.

Gildisdagur endurgreiðslu vegna uppgjörstímabila á árinu 2020 vera gjalddagi uppgjörstímabils hafi skýrslu verið skilað á tilskildum tíma. Að öðru leyti gilda ákvæði 25. gr. um endurgreiðsluna.

Á árinu 2020 er Skattinum heimilt, samkvæmt tilmælum eða að höfðu samráði við ráðherra, að fella niður álag skv. 27. gr., laga um virðisaukaskatt, tímabundið eða ótímabundið, enda hamli utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik almennt greiðslu virðisaukaskatts á réttum tíma.

6) Breyting á lögum nr. 87/2011 um gistináttaskatt. Niðurfelling gistináttaskatt.

Ekki verður innheimtur gistináttaskattur af sölu gistingar sem veitt er á tímabilinu 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2021. Fari afhending gistiþjónustu fram eftir 31. mars 2020 skal ekki innheimta gistináttaskatt á framangreindu tímabili. Gildir þetta án tillits til þess hvort samningur um sölu gistiþjónustu hefur verið gerður fyrir 1. apríl 2020. Gjalddagi gistináttaskatts vegna uppgjörstímabilanna janúar og febrúar annars vegar og mars og apríl hins vegar á árinu 2020 skal vera 5. febrúar 2022.

7) Breyting á lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Fasteignaskattur.

Gjaldendur fasteignaskatta skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. (fasteignir, svo sem iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu, sem eiga við tímabundna rekstrarörðugleika að stríða vegna tekju- falls heimilt að óska eftir frestun á allt að þremur greiðslum fasteignaskatts sem eru á gjalddaga 1. apríl 2020 til og með 1. desember 2020, með sömu skilyrðum og máls- meðferðarreglum og eiga við um staðgreiðslu opinberra gjalda. Gjalddagi og eindagi greiðslna sem frestun tekur réttilega til er 15. janúar 2021. Verði gjaldandi sem frestað hefur greiðslum skv. 1. mgr., að uppfylltum skilyrðum, fyrir miklu tekjufalli á rekstrarárinu 2020 samanborið við fyrra rekstrarár getur hann óskað eftir auknum fresti og dreifingu greiðslna sem hefur verið frestað fram til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021. Ósk um aukinn frest og greiðsludreifingu skal gjaldandinn beina til sveitarfélags fyrir 15. janúar 2021.

8) Breyting á lögum nr. 121/1997 um ríkisábyrgðir.

Breytingin kveður m.a. á um að ákvæði laga um ríkisábyrgðir gildi ekki um þær ábyrgðar- skuldbindingar sem ríkissjóði er heimilt að undirgangast gagnvart lánastofnunum vegna viðbótarlána þeirra til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heims- faraldurs kórónuveiru.

9) Breyting á þinglýsingalögum nr. 38/1977.

Kveðið er á um að viðauki við veðbréf, þar sem kröfuhafi er opinber stofnun eða fjármála- fyrirtæki eða lífeyrissjóður með fullgilt starfsleyfi, sem kveður eingöngu á um frestun greiðslna á skuldum einstaklinga eða fyrirtækja, þ.m.t. vöxtum og afborgunum, í allt að níu mánuði, frá og með 16. mars 2020 til og með 1. september 2020, vegna heims- faraldurs kórónuveiru, öðlist sömu réttaráhrif og ef honum væri þinglýst og hann sam- þykktur af síðari veðhöfum. Viðaukinn skuli undirritaður af hálfu lántaka, eða einhvers þess sem hefur heimild til að skuldbinda lögaðila, með eiginhandarundirskrift og vottaður í samræmi við 22. gr. þinglýsingalaga eða undirritaður með fullgildri rafrænni undirskrift. Þá skuli í viðaukanum tekið fram að skilmálabreyting sé gerð vegna faraldurs kórónu- veiru. Viðaukanum skal þinglýsa fyrir 16. mars 2021. Veðskuldabréf og tryggingabréf skulu ávallt árituð um skilmálabreytingu þá sem felst í viðaukanum.

10) Fjáraukalög.

Samþykkt voru fjáraukalög til:

 • að veita framlög í sérstakt tímabundið fjárfestingarátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu með arðbærum fjárfestingum sem auka eftirspurn eftir vinnuafli. Skilyrði framlaga til verkefnis er að það hefjist eigi síðar en 1. september 2020 og sé að fullu lokið eigi síðar en 1. apríl 2021. 7.29
 • að auka hlutafé í opinberum félögum í því skyni að auka fjárfestingargetu þeirra á árinu 2020.
 • að heimila gerð samnings við Íslandsstofu um samræmt kynningar- og markaðsstarf erlendis á árunum 2020–2021 til að bregðast við neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs á íslenska ferðaþjónustu.
 • að staðfesta ráðstöfun allt að 1,5 ma.kr. til markaðsátaks til stuðnings við íslenska ferðaþjónustu sem m.a. getur falið í sér hvatningu til ferðalaga innan lands með útgáfu gjafabréfs til allra íbúa 18 ára og eldri.
 • að veita lánastofnunum ábyrgð ríkissjóðs sem nemi 50–70% höfuðstóls viðbótarlána þeirra til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Jafnframt er ríkissjóði heimilt að semja við Seðlabanka Íslands um framkvæmd á veitingu ábyrgða gagnvart lánastofnunum. Skulu lánastofnanir við lánveitingarnar uppfylla nánari skilyrði sem fram skulu koma í samningi við Seðlabankann. Í samningnum skulu tilgreind þau hlutlægu skilyrði sem lögð verða til grundvallar ákvörðunum um skiptingu ábyrgða milli lánastofnana, ásamt nánari skilyrðum um hvernig tryggja megi að fyrirgreiðsla lánastofnana byggist á skýrum, málefnalegum og gagnsæjum forsendum sem leiði til jafnræðis þeirra fyrirtækja sem leita eftir fyrirgreiðslu og hvernig reglubundinni skýrslugjöf skuli háttað. Heildarábyrgð ríkissjóðs vegna viðbótarlána getur numið frá 35–50 ma.kr.

Þriðjudagur 24. mars 2020

Ríkisstjórnin hefur kynnt aðgerðir til að bregðast við áhrifum heimsfaraldursins sem nemur um 230 ma.kr. Aðgerðirnar eru þríþættar og miðað að því að tryggja afkomu fólks og fyrirtækja, verja grunnstoðir samfélagsins og skapa öfluga viðspyrnu fyrir efnahagslífið.

Felast aðgerðirnar hvað fyrirtæki varðar einkum í eftirtöldu

1) Ríkisábyrgð á brúarlánum til fyrirtækja

Stjórnvöld munu ábyrgjast helming brúarlána til fyrirtækja í rekstrarvanda og þannig styðja þau til að greiða laun og fastan rekstrarkostnað. Ábyrgðin nær til nýrra útlána til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir a.m.k. 40% tekjumissi. Hámarksfjárhæð nemur tvöföldum árslaunakostnaði og launakostnaður þarf að vera a.m.k. 25% af útgjöldum. Heimilt er að skilyrða ráðstöfun lánsfjár.

2) Frestun og afnám opinberra gjalda

Fresta má þremur gjalddögum staðgreiðslu og tryggingargjalds á árinu 2020 fram til ársins 2021. Skilyrði greiðslufrests eru að lágmarki þriðjungur samdráttar í rekstrartekjum yfir heilan mánuð samanborði við 2019 að tekjufallið hafi leitt af sér rekstrarörðugleika, þeir séu tímabundnir og ekki hafi verið til staðar varanlegur fjárhagsvandi.

3) Ferðaþjónusta styrkt

Allir íbúar á Íslandi 18 ára og eldri fá stafrænt gjafabréf frá stjórnvöldum sem hvatningu til ferðalaga innanlands og sem sem beinn stuðningur við íslenska ferðaþjónustu. Um verður að ræða 1,5 ma. kr. framlag frá stjórnvöldum. Nánari útfærsla er í vinnslu í samvinnu við heildarsamtök ferðaþjónustufyrirtækja. Gistináttagjald verður fellt niður til ársloka 2021. Gjalddaga fyrstu þriggja mánaða 2020 verður frestað til febrúar 2022.

4) Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna framkvæmda.

Endurgreiðsla virðisaukaskatts til einstaklinga vegna vinnu við endurbætur, viðhald og nýbyggingar fasteigna hækkar úr 60% í 100%. Endurgreiðslan mun nú einnig ná til heimilisaðstoðar auk byggingaframkvæmda félagasamtaka til almannaheilla. Gildistími breytingarinnar verður frá 1. mars 2020 til 31. desember 2020

Föstudagur 20. mars 2020

Þann 5. mars sl. var undirritað þríhliða samkomulag ríkisstjórnarinnar, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands um aðgerðir til að tryggja að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að fara í sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni. Samkomulagið fólst í eftirgreindu:

  1. Samtök atvinnulífsins munu beina þeim tilmælum til atvinnurekenda að laun verði greidd til einstaklinga sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda.
  2. Alþýðusamband Íslands mun beina þeim tilmælum til aðildarsamtaka sinna að sjóðfélagar í sjúkrasjóðum þeirra sem sýkjast njóti óskertra greiðslna úr sjóðunum að tæmdum veikindarétti.
  3. Stjórnvöld munu beita sér fyrir að breytingar verði gerðar á lögum um sjúkratryggingar í þá veru að atvinnurekendi, sem greiðir launamanni sem sætt hefur eða mun sæta sóttkví laun, geti krafið sjúkratryggingar um endurgreiðslu kostnaðar að ákveðnu hámarki séu tilteknar aðstæður fyrir hendi eins og til dæmis að launamaður geti ekki sinnt vinnu heiman frá sér. Unnið verði að útfærslu á þeirri aðkomu stjórnvalda og gildistíma og stefnt verði að því að þeirri vinnu verði lokið 13. mars.

Þann 13. mars voru lögð fram á Alþingi tvö lagafrumvörp til að ná fram markmiðum samkomulagsins, annars vegar frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðarsjóð launa og hins vegar frumvarp til laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að sýna merki þess að vera sýktir. Frumvörp þessi urðu að lögum þann 20. mars 2020. Verður nú gerð nánari grein fyrir réttarstöðu vinnuveitenda, starfsmanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á grundvelli þess er kveðið er á um í lögunum.

A Lög um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar

Tilgangur laganna er að stuðla að því að vinnuveitendur haldi ráðningarsambandi við starfsmenn sína eins og frekast er unnt enda þótt nauðsynlegt kunni að vera að minnka starfshlutfall þeirra að einhverju leyti.

1) Skert starfshlutfall og greiðsla atvinnuleysisbóta

Skerðing starfshlutfalls getur átt sér stað með tvennu móti. Í fyrsta lagi getur vinnuveitandi leitað til starfsmanns um að skerðing á starfshlutfalli með tilheyrandi lækkun launa komi til framkvæmda án uppsagnarfrests. Starfsmanni er í sjálfsvald sett hvort hann samþykkir slíka tilhögun. Samþykki hann það ekki gilda um uppsagnarfrest almennar reglur laga, viðkomandi kjarasamnings og að teknu tilliti til ráðningarsamnings. Ber því að segja upp þeim þætti ráðningarsamnings er tekur til starfshlutfalls með þeim uppsagnarfresti sem viðkomandi kjarasamningur/ ráðningarsamningur kveður á um.

Starfsmaður sem missir starf sitt að hluta er almennt hlutfallslega tryggður, sbr. 17. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og á þá rétt á greiðslu úr atvinnuleysistryggingu fyrir því sem nemur því starfshlutfalli er hann missir. Þegar launamaður ákveður sjálfur að draga úr starfshlutfalli sínu eða samþykkir tillögu vinnuveitanda um slíkt á hann samkvæmt þeim reglum sem gilt hafa fram til þessa, ekki rétt á hinni hlutfallslegu tryggingu.

Samkvæmt þeim reglum er gilt hafa fram til þessa skerðast atvinnuleysisbætur vegna tekna af hlutastarfi, sbr. 36. gr. laganna. Hin nýju lög mæla fyrir um að heimilt sé að greiða atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli án þess að föst laun frá vinnuveitanda, fyrir hið minnkaða starfshlutfall, komi til skerðingar á fjárhæð bótanna. Skilyrði er að fyrra starfshlutfall hafi lækkað um 20% hið minnsta og að starfsmaður hafi haldið að lágmarki 25% starfshlutfalli. Atvinnurekanda er óheimilt að krefjast vinnuframlags frá starfsmanni umfram minnkað starfshlutfall. Þá er og skilyrði að starfshlutfall sé skert vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda. Gildistími heimildarinnar er frá 15. mars til 1. júní 2020.

Í lögunum er kveðið á um að heimilt sé að greiða bætur samkvæmt þessu ákvæði þótt launamaður teljist ekki tryggður í skilningi laganna, svo sem vegna náms eða skilyrða um ávinnslutímabil enda sé skilyrðum ákvæðisins fullnægt. Þá á heimildin ekki við um fiskvinnslufólk sem nýtur réttar til kauptryggingar.

Greiðslur atvinnuleysisbóta skulu nema hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta í réttu hlutfalli við hið skerta starfshlutfall. Laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt geta þó aldrei numið hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns miðað við síðustu þrjá mánuði áður en starfsmaður missti starf sitt að hluta. Heildarsumma launa og atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæði þessu getur samanlagt aldrei numið hærri fjárhæð en 700.000 kr. á mánuði og ekki lægri fjárhæð en 400.000 kr.

2) Lækkun launa

Vilji atvinnurekandi leitast við að lækka laun starfsmanns þá gilda almennar reglur kjarasamninga og laga um uppsagnarfrest hvað það varðar líkt og varðandi starfshlutfall. Ber því að segja launalið upp með þeim uppsagnarfresti sem viðkomandi kjarasamningur/ráðningarsamningur kveður á um. Leiti fyrirtæki til starfsmanna sinna um að lækkun launa komi til framkvæmda án uppsagnarfrests getur hver og einn hafnað slíku og gert kröfu um að uppsagnarfresturinn sé virtur. Starfsmenn geta hins vegar samþykkt að lækka laun án þess fyrirvara sem uppsagnarfrestur felur í sér eins og áður segir. Fyrrgreind breyting á lögum nr. 54/2006 hefur engin áhrif í þessu efni.

B Lög um um tímabundnar greiðslur vegna launa til einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir.

1) Laun í sóttkví

Eins og að framan greinir eiga lögin um tímabundnar greiðslur vegna launa til einstaklinga sem sæta sóttkví rót að rekja til áðurgreinds samkomulags ríkisstjórnarinnar, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands frá 5. mars sl. Í samkomulaginu var gert ráð fyrir að atvinnurekendur greiddu laun til starfsmanna i sóttkví en gætu síðan sótt um endurgreiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands. Horfið var frá því fyrirkomulagi og ákveðið að setja tímabundin sérlög um greiðslur í þessum tilteknu tilvikum og að framkvæmd laganna myndi falla undir málefnasvið Vinnumálastofnunar. Gilda lögin um tímabilið frá 1. febrúar 2020 til og með 30. apríl 2020.

Skilyrði fyrir greiðslum koma fram í 5. gr. laganna. Þar er í fyrsta lagi gert ráð fyrir greiðslum til atvinnurekanda sem hefur greitt laun til launamanns sem sætti sóttkví, eða ef barn í hans forsjá undir 13 ára aldri eða barn undir 18 ára aldri sem þiggur þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sætti sóttkví. Jafnframt er skilyrði að starfsmaður hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða hluta þaðan sem hann sætti sóttkvínni og að önnur atvik hafi ekki staðið því í vegi að hann gæti mætt til vinnu á vinnustað. Þannig á vinnuveitandi ekki rétt til greiðslu ef starfsmaðurinn gat sinnt starfi sínu úr sóttkvínni.

Í öðru lagi á starfsmaður samkvæmt 5. gr. rétt á greiðslu launataps í þeim tilvikum að hann fékk ekki greidd laun, svo sem vegna rekstrarörðugleika eða tekjufalls atvinnurekanda en Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir staðfestingu frá atvinnurekanda um að laun hafi ekki verið greidd og upplýsingum um ástæður þess.

Greiðsla til atvinnurekanda tekur mið af heildarlaunum launamanns í þeim almanaksmánuði eða -mánuðum sem hann/barn hans, sbr. framangreint, var í sóttkví og greiðsla til launamanns tekur mið af heildarlaunum hans fyrir undanfarandi almanaksmánuð.

Vinnumálastofnun greiðir lögboðið 4% lífeyrisframlag starfsmanns til lífeyrissjóðs hans og jafnframt 11,5% mótframlag. Greiðslur geta ekki orðið hærri fyrir hvern heilan almanaksmánuð en kr. 633.000 og hámarksgreiðslur fyrir hvern dag er launamaður sætir sóttkví nema kr. 21.100.

Í þriðja lagi kveða lögin á um að sjálfstætt starfandi einstaklingar geti átt rétt til greiðslna fyrir launatap með sömu skilyrðum og gildir um greiðslur til atvinnurekanda. Greiðslur til þessara einstaklinga taka mið af 80% af mánaðarlegum meðaltekjum og skal þá miða við tekjuárið 2019. Sama hámark gildir um greiðslur til þessara einstaklinga og til launamanna.

Sá tími sem starfsmaður er í sóttkví gengur ekki á veikindarétt starfsmanns. Ef viðkomandi er hins vegar veikur af Covid–19 nýtir viðkomandi veikindarétt sinn hjá atvinnurekanda og að honum tæmdum skapast réttur í sjúkrasjóðum stéttarfélaganna.