UT Messan

Starfar þú á sviði upplýsingatækni?
Við viljum endilega kynnast þér.

Hafa Samband

Fróðleikur

Lögmenn LEX eiga í nánu samstarfi við viðskiptavini, hafa frumkvæði í lausnum og ráðgjöf, faglegri nálgun verkefna og stöðugri umbótahugsun.

LEX hefur um langt skeið veitt fyrirtækjum, opinberum stofnunum og einstaklingum víðtæka þjónustu á öllum sviðum og eru lögmenn LEX á meðal fremstu sérfræðinga landsins á sviði persónuverndar, hugverka-, fjarskipta- og upplýsingatækniréttar og veita alhliða þjónustu á þessum réttarsviðum.

Þá býður LEX einnig upp á sérhæfða þjónustu til fyrirtækja sem fást við þróun hugbúnaðar og gervigreindar, gerð gagnagrunna eða notast við tæknilausnir í störfum sínum og veita auk þess þjónustu á sviði rafrænna viðskipta og fjártækni

Skráningarskilyrði vörumerkja

24. maí, 2022

Skráningarskilyrði vörumerkja. Grein eftir Maríu Kristjánsdóttur sem birtist í Viðskiptablaðinu 24. febrúar 2022. 

Vörumerki fela í sér mikil fjárhagsleg verðmæti og eru gjarnan á meðal verðmætustu eigna fyrirtækja. Vörumerki gegna yfirleitt því hlutverki að vera „andlit“ fyrirtækja og ein mikilvægasta tenging þeirra við viðskiptavini.

Á bak við vel heppnuð vörumerki liggur yfirleitt mikil vinna og fjármunir við uppbyggingu og þróun og við að skapa góða ímynd og orðspor. Það er því mjög mikilvægt að huga að því frá upphafi að skapa sterkt vörumerki út frá vörumerkjarétti til þess að það njóti þeirrar lagalegu verndar sem felst í vörumerkjavernd.

Í grundvallaratriðum stofnast vörumerkjavernd með notkun vörumerkis annars vegar og með skráningu hins vegar. Það getur hins vegar reynst erfitt að sanna vörumerkjavernd sem stofnast hefur á grundvelli notkunar og því er skráning öruggari leið til að tryggja réttindin.

Til þess að unnt sé að skrá vörumerki í vörumerkjaskrá þarf merkið að uppfylla svokölluð skráningarskilyrði. Meginreglan er að vörumerki geti verið hvers konar tákn, svo fremi sem það sé til þess fallið að greina vörur eða þjónustu eins aðila frá vörum eða þjónustu annars aðila. Í þessum orðum felast jafnframt hin almennu skilyrði skráningar vörumerkja, að þau búi yfir nægu sérkenni og aðgreiningarhæfi.

Hin hliðin á skráningarskilyrðunum er að vörumerki mega ekki vera of lýsandi. Lýsandi merki eru þau merki sem eingöngu gefa til kynna tegund þeirrar vöru eða þjónustu sem þau auðkenna, til dæmis hvað varðar ástand, notkun eða uppruna. Slík merki eru talin skorta sérkenni.

Hið sama á við um tákn eða orðasambönd sem teljast algeng í viðskiptum eða eru notuð í daglegu máli, til dæmis 100%, útsala eða súper. Þessi orð og tákn eru einnig talin skorta sérkenni, án þess beinlínis að lýsa þeim vörum eða þjónustu sem um ræðir, og eru sem slík ekki talin skráningarhæf.

Tvö sjónarmið búa að baki kröfunni um sérkenni og aðgreiningarhæfi. Annars vegar að lýsing á vöru með almennum orðum eða mynd af vörunni sjálfri er ekki til þess fallin að gefa vörunni sérkenni í huga almennings.

Hins vegar er það sú staðreynd að í vörumerkjarétti felst ákveðinn einkaréttur fyrir eiganda vörumerkisins til að nota merkið í atvinnustarfsemi. Það er því ekki talið réttmætt að einstakir aðilar geti helgað sér almennar lýsingar á vörum og þjónustu þar sem slíkt myndi takmarka svigrúm annarra til að gera grein fyrir sínum vörum og þjónustu í sambærilegri starfsemi.

Það virðist ríkja nokkuð útbreiddur misskilningur um að vörumerki eigi beinlínis að lýsa þeirri vöru og þjónustu sem um ræðir. Því er það nokkuð algengt að við þróun vörumerkja verði fyrir valinu merki sem gefa einungis til kynna hvers konar vöru eða þjónustu er um að ræða. Staðreyndin er hins vegar sú að út frá sjónarhorni vörumerkjaréttarins eru sterkustu vörumerkin þau merki sem teljast ekki vera lýsandi.

Í dæmaskyni eru hér nokkur tilbúin dæmi um vörumerki sem skortir sérkenni og aðgreiningarhæfi og teljast auk þess lýsandi:

• Farsímafélagið
• Gæða Skyr
• Tölvuþjónustan

Öll dæmin eiga það sameiginlegt að gefa eingöngu til kynna hvers konar vöru eða þjónustu þau standa fyrir. Orðið Farsímafélagið gæti verið notað til að lýsa starfsemi allra fyrirtækja sem veita farsímaþjónustu. Sama á við um orðið Tölvuþjónustan og orðasambandið Gæða Skyr. Þá gæti það ekki talist sanngjarnt að einhver einn aðili fengi einkarétt á notkun ofangreindra orða og orðasambanda í atvinnustarfsemi.

Til samanburðar má nefna dæmi um vörumerki sem uppfylla kröfurnar um sérkenni og aðgreiningarhæfi í svipuðum flokkum og tilbúnu dæmin hér að framan:

• NOVA
• ÍSEY Skyr
• Origo

Ofangreind merki hafa fengist skráð í vörumerkjaskrá Hugverkastofunnar og teljast sterk út frá sjónarhorni vörumerkjaréttar. Þau uppfylla kröfurnar um sérkenni og aðgreiningarhæfi þar sem þau eru til þess fallin að greina þá starfsemi og vörur sem þau auðkenna frá vörum og þjónustu annarra í sömu starfsemi.

Það er afskaplega hvimleitt þegar aðilar hafa eytt löngum tíma og miklum fjármunum í sköpun vörumerkis, markaðsefni og auglýsingar til þess eins að komast að því á síðari stigum að ekki er hægt að skrá merkið þar sem það uppfyllir ekki skráningarskilyrðin, mögulega vegna þess að það telst of lýsandi.

Skráning vörumerkja er grundvallaratriði til að tryggja vernd þeirra og afar mikilvægt tól til þess að verjast brotum á vörumerkjarétti og koma í veg fyrir að aðrir nýti sér á ósanngjarnan hátt þau verðmæti sem fólgin eru í vörumerkinu. Það er því afar mikilvægt að huga að skráningarskilyrðum strax frá upphafi þegar hafist er handa við þróun og val á vörumerki.

Til baka í yfirlit