UT Messan

Starfar þú á sviði upplýsingatækni?
Við viljum endilega kynnast þér.

Hafa Samband

Fróðleikur

Lögmenn LEX eiga í nánu samstarfi við viðskiptavini, hafa frumkvæði í lausnum og ráðgjöf, faglegri nálgun verkefna og stöðugri umbótahugsun.

LEX hefur um langt skeið veitt fyrirtækjum, opinberum stofnunum og einstaklingum víðtæka þjónustu á öllum sviðum og eru lögmenn LEX á meðal fremstu sérfræðinga landsins á sviði persónuverndar, hugverka-, fjarskipta- og upplýsingatækniréttar og veita alhliða þjónustu á þessum réttarsviðum.

Þá býður LEX einnig upp á sérhæfða þjónustu til fyrirtækja sem fást við þróun hugbúnaðar og gervigreindar, gerð gagnagrunna eða notast við tæknilausnir í störfum sínum og veita auk þess þjónustu á sviði rafrænna viðskipta og fjártækni

Geta fyrirtæki átt liti?

4. febrúar, 2020

Geta fyrirtæki átt liti? Grein eftir Huldu Árnadóttur sem birtist í Fréttablaðinu 18. desember 2019

Vörumerki eru hvers kyns sýnileg tákn sem notuð eru til að greina vörur og þjónustu eins aðila frá vörum og þjónustu annarra. Þannig eru vörumerki tengiliður fyrirtækja við bæði núverandi og nýja viðskiptavini og það liggur því í hlutarins eðli að gott vörumerki getur skipt sköpum í samkeppninni um hylli neytenda.

Frá því að vörumerki fóru að gegna mikilvægu hlutverki við markaðssetningu fyrirtækja hefur tíðkast að þau séu skráð í öllum regnbogans litum enda sýna rannsóknir að vörumerki í lit eru almennt eftirminnilegri í hugum neytenda. Margir tengja svo dæmi séu nefnd vörumerkið Coca-Cola við litinn rauðan, vörumerkið Subway við litinn gulan, vörumerkið IKEA við litina gulan og bláan, vörumerkið Hagkaup við litinn appelsínugulan og svo mætti áfram telja. Þó að umrædd vörumerki séu skráð í lit eiga þó eigendur þeirra ekki einkarétt á notkun þeirra lita sem um er að tefla til auðkenningar á viðkomandi vörum eða þjónustu heldur vörumerkjunum eins og þau koma fyrir sjónir í heild. Það má til dæmis glöggt sjá á því að litinn gulan er að finna bæði í vörumerkinu Bónus og vörumerkinu Krónan. Ef eigandi vörumerkisins Bónus hefði öðlast einkarétt á gulum lit til auðkenningar á matvöruverslun við skráningu þess árið 1999 hefði vörumerkið Krónan ekki fengist skráð fyrir sömu starfsemi árið 2017.
Bónus - vörumerki
Krónan -vörumerki

Það hefur hins vegar færst í vöxt á undanförnum árum að fyrirtæki freisti þess að fá liti sem slíka skráða sem vörumerki. Líkt og dæmin hér að framan sýna eru í mörgum tilvikum sterk tengsl í hugum neytenda á milli vörumerkja og tiltekinna lita og það getur því veitt eigendum slíkra vörumerkja eftirsóknarvert samkeppnislegt forskot að fá þá liti sem þannig háttar til um skráða sem vörumerki. Takist það veitir skráningin þeim einkarétt til notkunar á viðkomandi lit eða litasamsetningu með þeim hætti sem skráningin segir til um til auðkenningar á tilteknum vörum eða þjónustu og geta þá aðrir sem bjóða upp á sambærilegar vörur eða þjónustu ekki notað sama lit eða litasamsetningu með sama hætti í vörumerkjum sínum, á viðkomandi vörum eða umbúðum þeirra eða annarri markaðsfærslu.
Fræðilega er ekkert því til fyrirstöðu að skrá lit eða litasamsetningu sem vörumerki og sá möguleiki hefur lengi verið viðurkenndur. Enn sem komið er hefur ekkert slíkt vörumerki verið samþykkt til skráningar hér á landi en mörg slík merki eru hins vegar skráð erlendis, til dæmis appelsínuguli liturinn á handfanginu á Fiskars-skærum, ljósfjólublái liturinn á umbúðunum utan um Milka-súkkulaði, blái liturinn á gjafaöskjunum frá Tiffany & Co. og svo mætti áfram telja.

Disney og rauði skósólinn

Litamerki teljast til svokallaðra óhefðbundinna vörumerkja ásamt til að mynda hljóðmerkjum, lyktarmerkjum og bragðmerkjum. Slík merki er unnt að skrá sem vörumerki að því gefnu að þau teljist sýnileg tákn og uppfylli kröfur um sérkenni, það er, að þau geti þjónað því grundvallarhlutverki sínu að greina vörur og þjónustu eins aðila frá vörum og þjónustu annarra.

Tiltölulega einfalt er að setja liti fram sem sýnileg tákn og er það almennt gert með vísan til númers viðkomandi litar í viðurkenndu litaflokkunarkerfi á borð við Pantone auk lýsingar á notkun hans, það er, hvort og með hvaða hætti hann er notaður á umbúðir viðkomandi vöru, vöruna sjálfa, á starfsstöðvum fyrirtækisins og svo mætti áfram telja. Til þess að litur sem slíkur teljist uppfylla kröfur vörumerkjalaga um sérkenni þarf sá sem sækist eftir skráningu hans hins vegar almennt að hafa notað viðkomandi lit með umfangsmiklum hætti í áraraðir á þann hátt sem tilgreint er í umsókninni. Helgast það af því að neytendur upplifa liti sjaldnast sem vörumerki sem gefur til kynna uppruna vöru eða þjónustu nema liturinn hafi verið notaður sem slíkur.
Louboutin - rauður skósóli

Eitt af þeim litamerkjum sem skráð eru víða erlendis er rauði skósólinn. Um er að ræða vörumerki í eigu franska tískuhússins Christian Louboutin sem tekur til rauða litarins Pantone 18-1663TP á skósóla. Í kjölfar frumsýningar á Disney-myndinni Frozen 2 sem allt stefnir í að hali inn yfir milljarð Bandaríkjadala í miðasölu hefur vaknað sú spurning hvort Disney hafi brotið gegn vörumerkjarétti Christian Louboutin til framangreinds merkis með vörum tengdum myndinni. Þannig er mál með vexti að í myndinni má sjá eina aðalsöguhetjuna, Önnu prinsessu, spranga um á ökklastígvélum með rauðum sóla. Slík stígvél eru jafnframt seld í Disney-verslunum víða um heim sem hluti af Önnu-búningum og svipar þeim óneitanlega nokkuð til ökklastígvéla frá Christian Louboutin þó verðmunurinn sé allnokkur. Á myndinni hér að neðan eru hin fyrr nefndu vinstra megin og hin síðar nefndu hægra megin.
Skór - Anna prinsessa og Louboutin

Christian Louboutin hefur fram til þessa staðið ötulan vörð um rauða skósólann, enda er hann eitt helsta sérkenni tískuhússins og hefur því þar af leiðandi verið velt upp hvort deila kunni að vera í uppsiglingu. Ýmsir hafa þó bent á að það kunni að hafa neikvæð áhrif á orðspor franska tískuhússins að grípa til aðgerða gegn Disney vegna vöru sem tengd er hinni elskuðu söguhetju Önnu og ætluð börnum enda lítil hætta á ruglingi að því er uppruna vörunnar varðar. Hvort tískuhúsið leggur í þá vegferð verður hins vegar að koma í ljós og aldrei að vita nema það hafi orð systur Önnu, Elsu prinsessu, að leiðarljósi í því sambandi en hún söng eins og flestir muna „Let it go“.

Til baka í yfirlit