UT Messan

Starfar þú á sviði upplýsingatækni?
Við viljum endilega kynnast þér.

Hafa Samband

Fróðleikur

Lögmenn LEX eiga í nánu samstarfi við viðskiptavini, hafa frumkvæði í lausnum og ráðgjöf, faglegri nálgun verkefna og stöðugri umbótahugsun.

LEX hefur um langt skeið veitt fyrirtækjum, opinberum stofnunum og einstaklingum víðtæka þjónustu á öllum sviðum og eru lögmenn LEX á meðal fremstu sérfræðinga landsins á sviði persónuverndar, hugverka-, fjarskipta- og upplýsingatækniréttar og veita alhliða þjónustu á þessum réttarsviðum.

Þá býður LEX einnig upp á sérhæfða þjónustu til fyrirtækja sem fást við þróun hugbúnaðar og gervigreindar, gerð gagnagrunna eða notast við tæknilausnir í störfum sínum og veita auk þess þjónustu á sviði rafrænna viðskipta og fjártækni

Ærumeiðingar og netþjónustuaðilar

4. febrúar, 2020

Ærumeiðingar og netþjónustuaðilar – Grein eftir Erlu S. Árnadóttur sem birtist í Morgunblaðinu 27. febrúar 2004.

Nokkur umræða hefur orðið um meiðandi tjáningu sem hefur færst í vöxt með nýrri tækni í fjarskiptum og rafrænum samskiptum. Spurt hefur verið hverjir beri ábyrgð á ærumeiðandi efni sem birtist á Netinu og hvort þörf sé breytinga á núverandi löggjöf.
Samkvæmt almennum hegningarlögum nr. 19/1940 liggur refsing við ærumeiðandi ummælum og unnt er að dæma þau ómerk. Skaðabótalög nr. 50/1993 veita heimild til greiðslu miskabóta í slíkum tilvikum. Ákvæðin eiga við óháð því birtingarformi ærumeiðandi ummæla. Tilkoma rafrænna miðla gjörbreytir hins vegar möguleikum almennings til að tjá skoðanir sínar, sem er í senn heillandi og ógnvekjandi staðreynd.

Rafrænir miðlar hafa leitt til breyttrar hlutverkaskipunar. Í hinu rafræna samfélagi eru ekki að sama marki og áður var útgefendur sem taka beinan þátt í því að koma efni á framfæri heldur hafa orðið til miðlar sem hafa fremur það hlutverk að veita aðstöðu fyrir aðra til að tjá sig á Netinu, meðal annars á spjallrásum og umræðuhópum. Þeir sem taka þátt í umræðu með þessu móti geta tjáð sig nafnlaust og ekki er alltaf unnt að rekja framlag til þess einstaklings sem í hlut á. Með þessu móti eykst hætta á því að einstaklingar sendi frá sér meiðandi efni, jafnvel nafnlaust eða í nafni annars einstaklings.
Í lögum nr. 57/1956 um prentrétt eru ákvæði um ábyrgð á efni útgefinna rita. Sé vitað hver er höfundur efnis í blaði eða tímariti ber hann sjálfur ábyrgð á því, ef ekki er vitað hver er höfundur bera útgefandi eða ritstjóri ábyrgðina, þar næst söluaðili og loks prentunaraðili ef öðrum er ekki til að dreifa. Útgefendur geta þannig orðið ábyrgir fyrir því prentaða efni er þeir stuðla að birtingu á. Samkvæmt útvarpslögum nr. 53/2000 ber sá er flytur efni í útvarpi eða sjónvarpi í eigin nafni eða tekur þátt í samtali í eigin nafni ábyrgð á því, flytjandi ber ábyrgð á efni sem annar hefur samið en útvarpsstjóri ber ábyrgð á öðru efni.

Í Evrópusambandinu var á árinu 2000 sett tilskipun um rafræn viðskipti sem var ætlað að tryggja innan sambandsins frjálst flæði þjónustu sem veitt er með rafrænum hætti. Ákvæði hennar voru innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Í lögunum eru reglur sem taka með vissum hætti á ábyrgð svokallaðra milligönguaðila, það er þeirra er veita þjónustu sem felst í því að hýsa efni og miðla því með rafrænum hætti um Netið. Reglurnar kveða á um hvernig hinir svokölluðu milligönguaðilar, þar með taldir hýsingaraðilar, geta firrt sig ábyrgð á ólögmætu efni er birtist vegna þjónustu þeirra.

Samkvæmt ákvæðum laganna um rafræn viðskipti ber hýsingaraðili ekki ábyrgð á gögnum ef hann fjarlægir þau eða hindrar aðgang að þeim án tafar eftir að hann fær vitneskju um gögn er innihalda barnaklám, eftir að hann fær tilkynningu um meint brot gegn ákvæðum höfundalaga eða ef hann fær vitneskju um að lagt hafi verið lögbann við hýsingu tiltekinna gagna eða að dómur hafi fallið um brottfellingu þeirra eða hindrun aðgangs að þeim. Til viðbótar þessum ákvæðum geyma lögin reglur um að fjarskiptafyrirtæki sem miðla gögnum eða veita aðgang að fjarskiptaneti og aðilar sem skyndivista gögn (e: caching) séu undanþegnir ábyrgð á gögnum að uppfylltum skilyrðum er lúta að því að þessir aðilar eigi enga hlutdeild eða frumkvæði að miðlun þeirra. Væntanlega yrði þeim sjónarmiðum, sem hér búa að baki, einnig beitt í þeim tilfellum þegar hýsingaraðili fær tilkynningu um að gögn er hann hýsir feli í sér ærumeiðandi ummæli og raunar gerir tilskipunin ráð fyrir því að reglurnar taki ekki eingöngu til efnis sem verndað er að höfundarrétti eða inniheldur barnaklám.

Lögin um rafræn viðskipti geyma ekki reglur um hverjir beri ábyrgð á efni er birtist á Netinu heldur undanþiggja þau milligönguaðilana ábyrgð í tilteknum tilfellum. Þar sem þessum reglum sleppir verður því að beita almennum reglum um bóta- og refsiábyrgð. Feli efni í sér ærumeiðingar ber höfundur refsi- og skaðabótaábyrgð á því. Sé ekki unnt að rekja efni til tiltekins höfundar kann málið að vandast. Tilskipunin byggir á því að milligönguaðilar beri ekki ábyrgð svo framarlega sem þeim er ekki kunnugt um innihald þess efnis er þeir hýsa eða flytja. Með hýsingaraðilum er átt við þá er eingöngu veita aðgang að Netinu og einnig þá er starfrækja fréttahópa og spjallrásir. Algengt er að aðilar sem starfrækja slíka þjónustu áskilji sér rétt til að fjarlægja efni er brýtur gegn réttindum annarra. Með því að fjarlægja efni þegar þjónustuveitanda verður þetta ljóst getur hann firrt sig ábyrgð á birtingu þess. Nauðsynlegt er þó að hafa í huga að starfsemi þeirra er starfrækja vettvang til skoðanaskipta á Netinu getur verið með ýmsu móti. Sá er lýsir því yfir að hann birti ekki efni nema að hafa samþykkt innihald þess kemur fram með nokkuð öðrum hætti en sá sem eingöngu veitir aðstöðu fyrir aðra til að tjá sig. Ef á reynir kynni að verða litið svo á að fyrrnefndi aðilinn firri sig ekki ábyrgð með því að fjarlægja efni eftir á. Hann kynni því að bera ábyrgð á birtingu efnis samkvæmt ákvæðum refsi- og skaðabótalaga.

Að baki ákvæðum tilskipunar Evrópusambandsins búa sjónarmið um snurðulausa starfsemi innri markaðarins og einnig rök um Netið sem vettvang þar sem tjáningarfrelsi ríkir. Tilskipunin bannar að milligönguaðilar séu skyldaðir til að hafa eftirlit með upplýsingum er þeir flytja eða geyma eða að skylda þá til að leita uppi með virkum hætti staðreyndir eða aðstæður sem benda til ólöglegrar starfsemi.

Af þessu sést að hér á landi gilda reglur sem taka til ábyrgðar á birtingu efnis á Netinu. Reglurnar um ábyrgðarleysi milligönguaðila geta vissulega leitt til þess að ekki sé unnt að draga neinn til ábyrgðar á birtingu efnis sem brýtur gegn réttindum annarra og þær koma þessum aðilum að nokkru leyti til hagsbóta miðað við eldri reglur. Vafalaust á eftir að reyna á beitingu þessara reglna. Vandséð er hins vegar að skynsamlegt væri að setja reglur um að í öllum tilfellum væri einhver dreginn til ábyrgðar á efni eftir óþekkta einstaklinga á Netinu.

Til baka í yfirlit