LEX Lögmannsstofa

Fréttir

LEX mun birta hér öðru hverju fréttir af málefnum stofunnar og starfsmönnum hennar, auk auglýsinga um útgáfu efnis frá LEX

Fréttir

ÚTGÁFA

LEX lögmannsstofa leggur áherslu á að viðskiptavinir njóti þjónustu sérhæfðra starfsmanna eftir því sem viðkomandi verkefni kallar á. Slíkt tryggir ekki aðeins fyrsta flokks ráðgjöf handa við­skiptavinum okkar heldur tryggir það einnig að þjónustan sé eins hagkvæm og kostur er. Þá starfa reyndir mál­flytjendur fyrir dómsstólum landsins á öllum fagsviðum LEX.

Réttarstaða innherja skýrð

25. maí, 2020

Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 123. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 („vvl.“) er innherja óheimilt að afla eða ráðstafa fjármálagerningum með beinum eða óbeinum hætti, fyrir eigin reikning eða annarra, búi hann yfir innherjaupplýsingum. Orðalag ákvæðisins gerir engan áskilnað um að innherji hafi nýtt sér viðkomandi innherjaupplýsingar til að gerast sekur um innherjasvik – nægilegt er að innherji hafi búið yfir innherjaupplýsingum á þeim tíma þegar viðskiptin áttu sér stað. Bann 123. gr. vvl. gengur lengra en 2. gr. markaðssvikatilskipunar ESB nr. 2003/6/EC sem ákvæðið á rætur sínar að rekja til þar sem nýting innherjaupplýsinga er gerð að skilyrði. Orðalag 123. gr. vvl. hefur af mörgum verið talið ganga helst til of langt með þeim afleiðingum að það geti girt fyrir eðlileg viðskipti þegar innherji býr yfir innherjaupplýsingum en beitir engum svikum – dæmi um slíkt tilvik er þegar tveir eða fleiri innherjar búa yfir nákvæmlega sömu innherjaupplýsingum og vilja eiga viðskipti.

Í dómi Landsréttar í máli nr. 917/2018 sem kveðinn var upp hinn 15. maí sl. reyndi á álitaefni þetta. Í málinu háttaði svo til að X, fruminnherji í N hf. seldi einkahlutafélaginu W ehf., sem var í hans eigu og undir hans stjórn hlutabréf sín í N hf. Ákæruvaldið taldi X hafa búið yfir innherjaupplýsingum þegar viðskiptin fóru fram og gaf út ákæru á hendur X þar sem honum var m.a. gefið að sök innherjasvik með framangreindum viðskiptum. Ákærði X hafnaði sök og byggði meðal annars á því að félagið, sem var alfarið í hans eigu og laut hans stjórn, hafi haft nákvæmlega sömu vitneskju um hag N hf. og hann sjálfur. Í niðurstöðu Landsréttar var gengið út frá því að X hafi búið yfir innherjaupplýsingum um N hf. þegar viðskiptin áttu sér stað, Um viðskiptin sem slík sagði Landsréttur hins vegar að þegar horft væri á atvik málsins í heild og til þeirra hagsmuna sem reglum um innherjaviðskipti væri ætlað að vernda verði ákvæðið ekki skýrt þannig að það eigi við um innbyrðis viðskipti þeirra sem búa yfir sömu innherjaupplýsingum þegar þeir eiga viðskipti með fjármálagerning. Sýknaði Landsréttur því X af ákæru um innherjasvik en tekið skal fram að í forsendum sínum vísaði Landsréttur meðal annars til þess að teknu tilliti til ástæðna viðskiptanna og opinberra tilkynninga um þau hafi í raun engin blekking falist í viðskiptunum gagnvart öðrum á hinum skipulega markaði.

Með dómi Landsréttar hefur áralöng óljós réttarstaða innherja því verið skýrð hvað framangreindar aðstæður varðar. Þannig er ekki útilokað að þrátt fyrir orðalag 123. gr. vvl. geti innherji átt viðskipti þegar hann býr yfir innherjaupplýsingum að öðrum skilyrðum uppfylltum. Framangreind niðurstaða Landsréttar er eðlileg enda fer hún í engu gegn verndarhagsmunum þeim sem bannreglunni í 1. tölulið 1. mgr. 123. gr. vvl. er ætlað að gæta. Þá er niðurstaðan í samræmi við dómaframkvæmd bæði Evrópudómstólsins sem og Hæstaréttar Danmerkur. Þá er niðurstaðan að lokum í samræmi við þá réttarstöðu sem verður hérlendis þegar ákvæði markaðssvikareglugerðar Evrópusambandsins nr. 596/2014 hafa verið innleidd í íslensk lög. Samkvæmt reglugerðinni, sem áætlað er að innleiða í lok árs, er nýting innherjaupplýsinga forsenda þess að innherjar geti gerst sekir um innherjasvik þegar þeir afla eða ráðstafa fjármálagerningum.

Samantekt: Stefán Orri Ólafsson

Aftur í fréttasafn