Fréttir

LEX mun birta hér öðru hverju fréttir af málefnum stofunnar og starfsmönnum hennar, auk auglýsinga um útgáfu efnis frá LEX

Fréttir

ÚTGÁFA

LEX lögmannsstofa leggur áherslu á að viðskiptavinir njóti þjónustu sérhæfðra starfsmanna eftir því sem viðkomandi verkefni kallar á. Slíkt tryggir ekki aðeins fyrsta flokks ráðgjöf handa við­skiptavinum okkar heldur tryggir það einnig að þjónustan sé eins hagkvæm og kostur er. Þá starfa reyndir mál­flytjendur fyrir dómsstólum landsins á öllum fagsviðum LEX.

Arnar Þór Stefánsson með erindi á fundi Verkfræðingafélagi Íslands

29. maí, 2018

Verkfræðingafélag Íslands stóð fyrir morgunfundi undir yfirskriftinni: Minna skrifræði – Meiri ábyrgð. Skipulagsferli – skilvirkni í þágu velferðar. Á fundinum flutti Arnar Þór Stefánsson, lögmaður og eigandi á LEX erindi undir heitinu: „Skilvirkari og sanngjarnari löggjöf“.

Arnar Þór Stefánsson hrl. minnti í upphafi erindis síns á það markmið Árósarsamningsins að tryggja rétt almennings og umhverfissamtaka til þess að hafa áhrif á ákvarðanir sem snerta umhverfið. Allt sem gert væri til þess að gera löggjöfina skilvirkari og sanngjarnari þyrfti að vera innan ramma Árósarsamningsins og EES- réttar.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála var sett á laggirnar árið 2012 og hefur frá upphafi glímt við málshraðavandamál. Aukin fjárveiting 2018 og aukning um tæplega tvö stöðugildi er ekki líkleg til þess að breyta þar miklu um. Arnar Þór gerði grein fyrir því að ástæður að baki löngum málsmeðferðartíma hjá Úrskurðarnefnd væru þríþættar. Í fyrsta lagi væri fjöldi kærumála meiri en gert hafði verið ráð fyrir við stofnun nefndarinnar. Í öðru lagi hefði fjölgun krafna um stöðvun framkvæmda og frestun réttaráhrifa aukist verulega. Þannig hefði 15% af innkomnum málum á árunum 2012 – 2013 verið af þeim toga en síðustu ár hefði hlutfallið verið 30 – 40%. Í þriðja lagi hefði viðamiklum málum fjölgað.

Meiri ábyrgð í kærumálum

Arnar Þór fór síðan yfir hugmyndir að því hvernig mætti innleiða meiri ábyrgð í kærumálum með hóflegri gjaldtöku. Hann lagði áherslu á orðið hóflegt þar sem gjaldtaka mætti ekki verða hindrun í vegi þátttöku almennings en á móti því mætti einnig vinna með gjafsókn af hálfu hins opinbera þegar um væri að ræða fjárvana aðila.

Á fundinum nefndi hann kærugjald, málskostnaðargjald vegna tilefnislausra kæra, tryggingargjald vegna stöðvunarkröfu og skilyrði yfir aðild umhverfisverndar – og útivistarsamtaka að kærumálum. Loks nefndi hann auknar heimildir til flýtimeðferðar.

Það eru fordæmi fyrir kærugjaldi víða í lögum og reglum og ekki gert ráð fyrir að allur kostnaður af kæruferli greiðist úr ríkissjóði eins og tilfellið er með Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Afleiðingin gæti orðið færri mál og aukinn málshraði. Hægt væri að kveða á um að kærugjald skuli endurgreitt fallist úrskurðarnefndin á málatilbúnað kæranda í heild eða að hluta eins og t.d. gildi hjá Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála.

Skilyrði fyrir kærurétti

Upptaka málskostnaðargjalds til ríkissjóðs eða gagnaðila, sem væri talsvert hærri fjárhæð en kærugjald, gæti komið til greina í þeim tilvikum þegar kæra reynist bersýnilega tilefnislaus eða er höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framkvæmd. Um þetta er t.d. að finna fordæmi í lögum um opinber innkaup.

Upptaka hóflegs tryggingargjalds vegna stöðvunarkröfu á hafnar eða yfirvofandi framkvæmdir á sér meðal annars fordæmi í lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. og er fjárhæðin metin hverju sinni með tilliti til hugsanlegs tjóns.

Til álita gæti komið að þrengja aðild umhverfisverndar – og útivistarsamtaka að Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála með skilyrði um það að til kæruréttar stofnist að því gefnu að slík samtök hafi látið sig mál varða á fyrri stigum þess. Þetta er í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar. Það er íþyngjandi fyrir framkvæmdaaðila að þurfa að sæta kæru á lokastigi framkvæmdar sem hefur verið í löngu undirbúnings- og kynningarferli. Í gildistíð eldri laga nr. 73/1997 var hægt að vísa kæru frá ef kærandi hafði ekki látið sig málið varða á fyrri stigum. Ekki er sambærilegt ákvæði í gildandi lögum.

Þá kemur til greina að auka heimildir til flýtimeðferðar mála sem varða verulega hagsmuni aðila, hvort sem um er að ræða kærða eða kærenda. Meginreglan hjá úrskurðarnefndinni er að taka mál fyrir í tímaröð innnkominna erinda. Skýr lagaheimild til þess að ná fram flýtimeðferð gæti hugsanlega dregið úr fjölda stöðvunarkrafna.

Arnar Þór sagði að endingu að hugsanlegar lagabreytingar kölluðu á samráð og valkosta- og áhrifamat. Þær þyrftu að vera í samræmi við Árósarsamninginn og alþjóðlegar skuldbindingar. Nauðsynlegt væri að líta til þróunar í Evrópu, einkum á Norðurlöndunum.

Aftur í fréttasafn